Var nauðsynlegt að skjóta hann?

Farið var með hræ ísbjarnarins til Longyearbyen til rannsóknar.
Farið var með hræ ísbjarnarins til Longyearbyen til rannsóknar. AFP

Mikil umræða hefur farið af stað í kjölfar dráps öryggisvarðar þýsks skemmtiferðaskips á hvítabirni á nyrstu eyju Svalbarða á laugardag. Telja sumir gagnrýnivert að ferðamennskan sé farin að gera út af við það sem ferðamenn eru einmitt komnir til að skoða: Hvítabirni.

Náttúrufarið á Spitsbergen, nyrstu eyju Svalbarða, einkennist af jöklum, hreindýrum og hvítabjörnum. Þangað var skemmtiferðaskipið MS Bremen komið til að gefa gestum tækifæri á að berja dýrðina augum. Áður en ferðamennirnir fóru í land fór hópur öryggisvarða á vettvang til að kanna aðstæður. Ekki vildi betur til en svo að björn kom óvænt að einum þeirra og réðst á hann. Forsvarsmenn skipafélagsins segja verðina í fyrstu hafa reynt að fæla hann burt með hrópum og viðvörunarskotum en allt hafi komið fyrir ekki. Einn varðanna hafi því neyðst til að skjóta björninn til bana. Vörðurinn sem björninn réðst á slasaðist á höfði og var fluttur á sjúkrahús í Longyearbyen. Ástand hans er sagt stöðugt.

Lögum samkvæmt ber skemmtiferðaskipum á þessum slóðum að hafa sérþjálfaða öryggisverði í áhöfn sinni sem fara í land og tryggja vettvang áður en ferðamenn eru fluttir þangað. 

Ferðamenn sem ógna dýralífi

„Ferðamennskan, enn einu sinni kemur í ljós að hún ógnar dýralífi,“ skrifar Adam Hart líffræðiprófessor um árásina á björninn á Twitter. „Við skulum endilega fara of nálægt hvítabirni í sínu náttúrulega umhverfi og skjóta hann svo ef hann kemur of nálægt,“ skrifar grínistinn Ricky Gervais af sinni alkunnu kaldhæðni á sama miðil. 

Hvítabirnir eru skilgreindir sem viðkvæm tegund, þ.e. þótt þeir séu ekki taldir í bráðri útrýmingarhættu megi lítið út af bregða. 

„Þetta er ólýsanlega sorglegt,“ segir dýraverndunarsinninn Jeff Worwin í samtali við CNN. „Þegar það eru aðeins um 25 þúsund hvítabirnir eftir á jörðinni þá skiptir hver og einn þeirra máli. Þegar þú ert í vistkerfi sem ferðamaður, sem landkönnuður eða vísindamaður, þá berð þú þá ábyrgð að fylgja reglum til að tryggja öryggi þitt og til að þú truflir ekki villta hegðun hvítabjarna.“

Hapag-Lloyd-skipafélagið, sem rekur MS Bremen, segir það ekki rétt að farið sé eingöngu í land á Svalbarða í þeim tilgangi að skoða hvítabirni. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að aðeins sé hægt að fara í land á Spitsbergen á nokkrum stöðum. „Fylgst er með hvítabjörnum frá skipinu úr öruggri fjarlægð,“ segir í yfirlýsingunni.

Norska ísbjarnastofnunin hefur varað ferðamenn á Svalbarða ítarlega við þeim hættum sem fylgja því að heimsækja heimkynni hvítabjarna. Er það gert að skilyrði að ferðamenn hafi meðferðis vopn til að verjast. „Athugið að það er bannað að elta, leita að eða lokka til sín hvítabirni. Þessi miklu rándýr bera litla virðingu fyrir mönnum og hættulegar aðstæður geta auðveldlega skapast ef fólk fer of nærri þeim.

Um 3.000 hvítabirnir eru nú á Svalbarða og því eru þeir fleiri en fólkið sem þar dvelur.

Áhrif loftslagsbreytinga

Sérfræðingar vara við því að vegna loftslagsbreytinga sem þrengt hafa verulega að búsvæðum hvítabjarna fara dýrin nú á ókunnar slóðir og verða því oftar en áður á vegi manna. 

„Vegna loftslagsbreytinga er heimskautaísinn minni og hvítabirnir verða að dvelja lengur á landi en áður. Þar með skapast meiri hætta á fundum manna og bjarna,“ segir Sybille Klenzendorf, líffræðingur hjá World Wildlife Fund, í samtali við bandarísku NBC-fréttastofuna. 

Hún segir það ekki eingöngu ferðamenn sem verða varir við þetta heldur einnig samfélög á norðurslóðum. „Allir þeir sem búa á heimskautasvæðum geta átt von á að verða á vegi hvítabjarna og við verðum að vera undirbúin og geta brugðist við.“

Vegna loftslagsbreytinga þrengir að búsvæðum hvítabjarna og þeir þurfa að …
Vegna loftslagsbreytinga þrengir að búsvæðum hvítabjarna og þeir þurfa að eyða meiri tíma á landi eða í sjó. AFP

Brian Horner, sérfræðingur hjá LTR Training Solutions í Alaska, segir að fælandi aðgerðir hafi reynst mjög árangursríkar gagnvart hvítabjörnum. Öryggisverðir ættu að grípa til slíkra ráða áður en þeir grípa til skotvopna. Skoteldar, sem springa með hvelli, eru dæmi um slíkt. Hins vegar verði að fara rétt að og gæta þess að hvellurinn fæli björninn í rétt átt, frá manni en ekki að. Þá ættu verðir einnig að skjóta púðurskotum og ef þau duga ekki til sé hægt að skjóta gúmmíkúlum í björninn. 

Greind dýr

Klenzendorf segir að lögum samkvæmt eigi öryggisverðir skemmtiferðaskipa við Svalbarða að fara í ákveðnar aðgerðir er hætta steðji að líkt og gerðist nú um helgina. Hún bendir þó á að aðstæður á heimskautasvæðum geti breyst í einni hendingu og erfitt geti verið að koma auga á hvítabirni á þessum slóðum.

„Hvítabirnir eru greindir, mjög greindir,“ segir Horner. „Og þeir verða að veiða mjög mikið. Forvitni þeirra breytist í mikinn áhuga mjög fljótt.“

Hann bendir á að þetta sé aðeins í annað sinn á þeim tveimur áratugum sem skemmtiferðasiglingar hafa verið stundaðar til Svalbarða sem hvítabjörn hefur verið drepinn. Það þyki honum til marks um að lögum og reglum sé fylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert