Elif Shafak í fótspor Sjón

Katie Paterson, Marianne Borgen borgarstjóri með verkið innpakkað og Elif …
Katie Paterson, Marianne Borgen borgarstjóri með verkið innpakkað og Elif Shafak. Ljósmynd/Framtíðarbókasafnið á Facebook

Veðrið lék við tyrkneska rithöfundinn Elif Shafak og föruneyti í Norðmerkurskógi utan Óslóar þegar hún afhenti borgarstjóra Óslóar framlag sitt til Framtíðarbókasafnsins. Verkið, sem ber titilinn The Last Taboo (Síðasta tabúið), fer nú í læsta skúffu á borgarbókasafni Óslóar þar sem það verður geymt til ársins 2114.

„Ég fann fyrir anda jafnréttis. Bakgrunnur þinn skiptir ekki máli, hvorki kynþáttur, litarhaft, starf eða hvað þú ert með í laun. Kjarninn er þessi mannlegi þáttur, sem er sannarlega alltumlykjandi hér,“ segir Elif Shafak um verkið. „Þegar allt kemur til alls er þetta það sem við rithöfundar trúum á.“ 

Hún segist nota orðið tabú í mjög víðum skilningi. Það geti átt við stjórnmálaleg tabú en einnig kynferðisleg eða menningarleg. „Það gildir um allt sem við megum ekki ræða. Þá er alltaf eitthvað inni í mér sem vill fá að ræða það.“

Shafak skrifar bæði á ensku og tyrknesku en eftir hana liggja 16 bækur, þar af tíu skáldsögur þeirra á meðal Bastarðurinn í IstanbúlÞrjár dætur Evu og Heiður en sú síðastnefnda hefur komið út í íslenskri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. 

100 ára einsemd

Framtíðarbókasafnið er hugarfóstur skoska listamannsins Katie Paterson og er unnið í samstarfi við bókasafnið í Ósló. Árlega í 100 ár verður einn rithöfundur fenginn til að skrifa verk og leggja til safnsins. Verkin eru geymd í læstri skúffu á bókasafninu í Ósló í sérstöku herbergi tileinkuðu Framtíðarbókasafninu. Ritsafnið verður svo birt í heild sinni þegar síðasta verkinu hefur verið skilað árið 2114. Þangað til verðum við að geta okkur til um innihaldið.

Sjón var rithöfundur Framtíðarbókasafnsins í fyrra.
Sjón var rithöfundur Framtíðarbókasafnsins í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verkefnið hófst árið 2014 og er Elif Shafak fjórða í röð hundrað rithöfunda.Hin kanadíska Margaret Atwood reið á vaðið og enski rithöfundurinn David Mitchell var næstur. Í fyrra var það svo íslenski rithöfundur Sjón sem fékk þann heiður en verk hans hafði þann vígalega titil VII Þegar enni mitt strýkst við kjólfald engla eða Nokkuð um fallturninn, rússíbanann, snúningsbollana og önnur tilbeiðslutæki frá tímum síðiðnvæðingarinnar.

Í samtali við Morgunblaðið af því tilefni sagði Sjón að það hefði áhrif á skriftirnar að vita að hann kæmi aldrei til með að fá viðbrögð við textanum. „Maður verður meðvitaðri um allt efni og orðanotkun og varanleika textans.“

Undir þetta tekur Elif Shafak í samtali við Channel 4 sjónvarpsstöðina. Henni hafi liðið eins og hún væri að skrifa flöskuskeyti sem vonandi skilar sér til strandar einhvers staðar.

Nýja bókasafnið í Ósló, Deichman, opnar á næsta ári. Byggingin …
Nýja bókasafnið í Ósló, Deichman, opnar á næsta ári. Byggingin er við hlið Óperunnar og Munch-safnsins og samanstendur af þremur glerstrendingum, byggt í fúnksjónalískum stíl. Í byggingunni er sérstakt herbergi tileinkað Framtíðarbókasafninu þar sem verkin verða geymd til ársins 2114. Ljósmynd/Óslóarborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert