Gullmedalíu rúmfræðings stolið

Verðlaunin voru veitt í Rio de Janeiro í gær.
Verðlaunin voru veitt í Rio de Janeiro í gær. AFP

14 karata gullmedalíu stærðfræðingsins Caucher Birkar, sem vann hin virtu Fields-verðlaun í stærðfræði, var stolið á verðlaunaafhendingu í Rio de Janeiro í Brasilíu í gær.

Caucher Birkar er fertugur Kúrdi en býr í Bretlandi þangað sem hann kom sem flóttamaður upp úr aldamótum. Hann er prófessor við Cambridge-háskóla og einn fjögurra stærðfræðinga sem fengu Fields-verðlaunin að þessu sinni.

Aðeins nokkrum mínútum eftir að hafa veitt verðlaununum viðtöku tók Birkar eftir því að skjalataska hans, sem innihélt gullmedalíuna, veski og farsíma, var horfin, að því er fram kemur í brasilíska dagblaðinu O Globo.

Cauchar Birkar tekur við medalíunni.
Cauchar Birkar tekur við medalíunni. AFP

Skjalataskan fannst stuttu síðar utan við veislusalinn en medalían var hvergi sjáanleg og engum sögum fer af farsímanum og veskinu. Skipulagsnefnd stærðfræðiþingsins rannsakar nú upptökur úr eftirlitsmyndavélum veislusalarins í samvinnu við yfirvöld.

Fields-verðlaunin eru veitt fjórða hvert ár ungum stærðfræðingum (fertugum eða yngri) á þingi Alþjóðastærðfræðisambandsins. Þau eru nefnd eftir kanadíska stærðfræðingnum John Chales Fields, sem skrifaði doktorsritgerð sína um lausn á tilteknum n-ta stigs diffurjöfnum með notkun ákveðins heildis.

Þykir mikið efni

Caucher Birkar útskrifaðist með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskólanum í Teheran og tók þátt í alþjóðlegri stærðfræðikeppni háskólanema í London árið 2000. Stuttu síðar fluttist hann til landsins sem flóttamaður og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Nottingham. Á ferli sínum hefur Caucher Birkar unnið til þó nokkurra verðlauna og var honum veitt innganga í hið virta Stærðfræðafélag í London árið 2003, þá 25 ára að aldri, sem efnilegasta doktorsnemanum í Bretlandi. 

Helstu viðfangsefni Birkar eru á sviði algebrulegrar rúmfræði, undirgreinar stærðfræðinnar sem nýtir algebrulegar aðferðir, einkum úr víxlinni algebru, til að leysa rúmfræðileg vandamál. Algebruleg rúmfræði er fyrirferðarmikil í nútímastærðfræði og tengist sviðum á borð við tvinnfallagreiningu, grannfræði og talnafræði. Sérhæfing Birkar hefur verið á sviði gagnræðrar rúmfræði yfir svið með jákvæða kennitölu.

Auk Cauchar Birkar voru þeir Alessio Figalli, Peter Scholze og …
Auk Cauchar Birkar voru þeir Alessio Figalli, Peter Scholze og Akshay Venkatesh verðlaunaðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert