Afsögn vegna mannskæðra gróðurelda

Nikos Toskas, almannavarnaráðherra Grikklands, sagði af sér vegna eldanna.
Nikos Toskas, almannavarnaráðherra Grikklands, sagði af sér vegna eldanna. AFP

Almannavarnaráðherra Grikklands, Nikos Toskas, sagði af sér í morgun vegna mikils manntjóns sem varð í gróðureldunum sem komu upp á Aþenu-svæðinu í lok júlí. Í tilkynningu frá skrifstofu Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segir að hann hafi samþykkt afsögn Toskas.

Í frétt AFP um málið segir að Tsipras hafi verið undir mikilli pressu að reka ráðherra úr ríkisstjórn sinni eftir eldana sem eru þeir mannskæðustu í sögu Grikklands. 88 létu lífið og 40 liggja á sjúkrahúsi, þar af níu mjög þungt haldnir. Þá er eins saknað.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sakað ríkisstjórn landsins um að hafa brugðist með því að tryggja ekki nægilega góðar varnir og rýma svæðið sem reglulega hefur verið leikið grátt af gróðureldum. Í kjölfar eldanna sendu slökkvilið og lögregla, sem hvort tveggja heyrðu undir ráðuneyti Toskas, frá sér misvísandi ályktanir ofan í hvort annað.

mbl.is