Erfitt að greina leikfangabyssu

Sænskir lögreglumenn skutu fatlaðan mann til bana.
Sænskir lögreglumenn skutu fatlaðan mann til bana. AFP

Mjög erfitt er að greina úr fjarska hvort manneskja heldur á alvörubyssu eða leikfangi segir ríkislögreglustjóri Svíþjóðar. Lögreglan í Stokkhólmi skaut mann með downs-heilkenni til bana í borginni í vikunni og hefur það vakið hörð viðbrögð. 

Martin Lundin ríkislögreglustjóri segir að leikfangabyssur geti litið mjög raunverulega út. „Við aðstæður þar sem einhver birtist skyndilega með slíkt vopn er algjörlega ómögulegt að greina hvort um raunverulegt vopn sé að ræða,“ segir hann í samtali við sænska ríkisútvarpið.

Í fréttinni kemur fram að vitni segi nokkra lögreglumenn hafa skotið á manninn. Lundin segir að yfirleitt sé það aðeins einn lögreglumaður sem hleypi af. „Hins vegar koma upp aðstæður þar sem fleiri lögreglumenn skjóta á sama tíma. Þetta gæti orðið til þess að fleiri upplifi ógn.“

Samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins var maðurinn skotinn í kviðinn og lést hann svo af sárum sínum. 

Mörgum þykir gagnrýnivert að lögreglan hafi ekki vitað að maðurinn var fatlaður. Lundin segir að þegar upp komi aðstæður þar sem talið er að ógn steðji að sé sjaldnast tími til að leggja mat á slíkt. Hann segir að lögreglumenn séu þjálfaðir til að taka á aðstæðum þar veikindi eða fötlun komi við sögu. Hins vegar geti verið að betur þurfi að huga að slíku héðan í frá.

Í fyrra skaut lögreglan í Svíþjóð einn mann til bana. Í ár eru þeir orðnir sex. Lundin segir að horfa verði til lengra tímabils til að draga marktækar ályktanir. Hann segir að einfaldasta skýringin sé sú að lögreglumenn vinni við erfiðari aðstæður nú en áður. 

Hinn látni var á þrítugsaldri. Rannsókn er hafin á viðbrögðum lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert