Lögreglan segist vita hvar Sunniva var myrt

Sunniva Ødegård fannst látin aðfaranótt mánudags. Hún var þrettán ára.
Sunniva Ødegård fannst látin aðfaranótt mánudags. Hún var þrettán ára.

Norska lögreglan veit hvar hin þrettán ára gamla Sunni­va Ødegård var myrt en vill ekki veita upplýsingar að svo stöddu um hvar morðið átti sér stað eða hvort það hafi verið á sama stað og hún fannst látin aðfaranótt mánudags. Þetta staðfestir Bjørn Kåre Dahl í samtali við NRK.

Sunniva var búsett í smábænum Varhaug í Rogalandi og var á leið heim til sín frá vini sínum um klukkan hálfellefu á sunnudagskvöld. Síðustu sam­skipt­in sem hún er tal­in hafa átt fyr­ir and­látið er sím­tal við fjór­tán ára gaml­an kær­asta sinn klukk­an 22.30 að kvöldi sunnu­dags. „Nú er ég kom­in heim. Sjitt!“ sagði hún áður en sím­talið rofnaði. Lík hennar fannst aðfaranótt mánudags við göngu­stíg ná­lægt brú.

Telja sig hafa handsamað morðingjann

NRK greinir frá því að lögreglan telur sig hafa handtekið morðingja Sunnivu, 17 ára dreng, sem hefur verið í haldi lögreglu frá því á þriðjudag. Dreng­ur­inn er einnig grunaður um aðild að inn­broti í ná­grenn­inu sama kvöld og hefur hann játað að hafa verið þar að verki. Hann neitar hins vegar að tengjast morðinu á Sunnivu en viðurkennir að hann hafi verið í grennd við staðinn þar sem lík henn­ar fannst.

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að yfirheyra drenginn en þær hafa ekki skilað árangri. Hann dvelur í unglingafangelsinu í Bergen á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Drengurinn hef­ur komið við sögu lög­regl­unn­ar áður en þó ekki vegna of­beld­is­verka. Hann teng­ist meðal annars íkveikju í skóla í Var­haug í byrj­un júlí.

Vilja ná tali af pari

Lögreglan óskaði eftir því í gærkvöldi að ná tali af pari á þrítugsaldri en talið er að það hafi verið á göngu í grennd við brúna þar sem lík Sunnivu fannst. Parið hefur ekki gefið sig fram. 

Lögreglunni hafa borist yfir 80 ábendingar í tengslum við málið og hafa yfir 40 manns verið yfirheyrðir vegna rannsóknarinnar. 





Lík Sunnivu fannst aðfaranótt mánudags við göngu­stíg ná­lægt brú í …
Lík Sunnivu fannst aðfaranótt mánudags við göngu­stíg ná­lægt brú í heimabæ hennar, Varhaug í Rogalandi í Noregi. Ljósmynd/Marius Vervik/VG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert