Steypti sér í skuldir fyrir skotárásina

60 milljónum króna eyddi Paddock í fjárhættuspil og 10 milljónum …
60 milljónum króna eyddi Paddock í fjárhættuspil og 10 milljónum í byssukaup stuttu fyrir skotárásina. AFP

Stephen Paddock er maðurinn á bak við stærstu skotárás í Bandaríkjunum í áratugi. Hann skaut 58 til bana og særði 851 á tónlistarhátíð í Las Vegas í Nevada 1. október í fyrra. Hann var 64 ára gamall fyrrverandi endurskoðandi, fasteignabraskari og fjárhættuspilari.

Í rannsóknarskýrslu lögreglu, sem var gefin út í gær segir að Paddock hafi á árinu fyrir árásina tapað 1,5 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 160 milljóna króna, í fjárhættuspilum. Þá segir að Paddock hafi síðustu mánuðina fyrir árásina orðið heltekinn af byssum og sífellt óstöðugri andlega. Hann hafi fjarlægst kærustu sína og fjölskyldu og stöðugt kvartað undan veikindum.

Tíu mánaða rannsókn á skotárásinni er nú lokið án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvaða hvatar bjuggu að baki. Niðurstaða lögreglu er þó sú að enginn hafi verið í vitorði með Paddock og verður enginn ákærður vegna málsins. Paddock framdi sjálfsvíg á vettvangi um klukkustund eftir að hann hóf skothríðina. Krufning leiddi ekki í ljós neitt óvenjulegt jafnvel eftir að heilinn hafði verið sendur til rannsóknar í Stanford-háskóla.

Frétt Boston Globe

Minnisvarði um fórnarlömbin 58.
Minnisvarði um fórnarlömbin 58. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert