Jobs sagði dótturina lykta eins og klósett

Steve Jobs lést árið 2011 eftir baráttu við krabbamein.
Steve Jobs lést árið 2011 eftir baráttu við krabbamein. AFP

Steve Jobs sagði dóttur sinni að hún „lyktaði eins klósett“ er hann lá banaleguna. Þá sagði hann henni ungri að hún myndi ekki erfa neitt eftir hann. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri endurminningabók Lisu Brennan-Jobs, dóttur hans, sem kemur út í næsta mánuði og lýsir strembnu sambandi feðginanna að því er breska dagblaðið Daily Telegraph greinir frá.

Lisa Brennan-Jobs fæddist árið 1978, tveimur árum eftir að faðir hennar hafði stofnað tölvuframleiðandann Apple, sem síðar átti eftir að verða verðmætasta fyrirtæki heims á markaði. Hann var aldrei áhugasamur um dóttur sína og var til að mynda ekki viðstaddur fæðingu hennar. Jobs hafði kynnst barnsmóður sinni, Chrisann Brennan, í menntaskóla og vann hún um tíma hjá Apple áður en fyrirtækið fór á markað. Samband þeirra var slitrótt og sleit Brennan því stuttu eftir að Lisa fæddist vegna þess hve áhugalaus Jobs var um dótturina, að því er fram kemur í endurminningum Brennan.

Lisa Brennan-Jobs er ein fjögurra barna Steve Jobs.
Lisa Brennan-Jobs er ein fjögurra barna Steve Jobs. Ljósmynd/Wikipedia

Lisa lýsir því hvernig faðir hennar neitaði því fyrst um sinn að hún væri dóttir hans. Þegar hún var tveggja ára höfðaði saksóknari í Kaliforníu mál á hendur Jobs til að fá hann til að greiða meðlag. Úr varð að Jobs og dóttir hans fóru í DNA-próf, sem leiddi í ljós að hann væri í reynd faðir hennar. Dómurinn úrskurðaði að Jobs skyldi greiða barnsmóður sinni 385 dali í meðlag á mánuði en Lisa segir að faðir hennar hafi sjálfur ákveðið að hækka það í 500.

Síðar átti Jobs eftir að biðjast afsökunar á því hvernig hann kom fram við mæðgurnar og þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar erfði hann dóttur sína að milljónum bandaríkjadala.

Endurminningabókin, sem ber titilinn Small Fry kemur út 4. september en hægt er að forpanta bókina á vef Amazon. Áður hefur móðir Lisu, Chrisann Brennan, gefið út bók um samband sitt við tæknifrumkvöðulinn og heitir hún A Bite in the Apple.

 Frétt Telegraph

Apple Lisa kom út árið 1983 og var ein fyrsta …
Apple Lisa kom út árið 1983 og var ein fyrsta einkatölvan. Í endurminningunum segir Lisa Brennan-Jobs frá því hvernig faðir hennar neitaði því að tölvan væri nefnd í höfuðið á henni, allt þar til fjölskyldan var stödd á sveitasetri rokkstjörnunnar Bono í Frakklandi. U2-söngvarinn hafi spurt Jobs beint út hvort tölvan væri ekki örugglega nefnd eftir dóttur hans og hann játað. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is