Segir Breta og ESB fjarlægjast samning

Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta, er hlynntur Brexit.
Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta, er hlynntur Brexit. AFP

Meiri líkur eru en minni á að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu verði án samnings. Þetta segir alþjóðaviðskiptaráðherra Bretlands, Liam Fox, í samtali við Sunday Times. Hann sakar Evrópusambandið um „þvermóðsku“ í samningaviðræðunum.

Í samtali við blaðið segir Fox að Michel Barnier, yfirsamningamaður Evróusambandsins, hafi hafnað tillögum sem komu frá Bretum á þeim grundvelli að sambandið hafi aldrei farið þá leið sem Bretar lögðu til áður. Þess má geta að Bretland er fyrsta landið til að ganga úr Evrópusambandinu frá stofnun sambandsins.

Í frétt AFP um málið segir Fox að á meðan þörf embættismanna Evrópusambandsins til þess að sjá Evrópubúum fyrir efnahagslegri velferð sé til staðar geti ekki orðið Brexit fyrir fólkið, heldur aðeins Brextit fyrir skriffinnana. 

„Ég held að þvermóðska Evrópuráðsins þvingi okkur fjær samningi,“ sagði Fox í samtali við Sunday Times. Segir hann að það sé undir Evrópusambandinu að koma með tillögur að samningi sem báðir aðilar geti fallist á eftir að tillögum Theresu May forsætisráðherra Bretlands var hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert