Refsiaðgerðir gegn Íran taki gildi í nótt

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað forsetatilskipun um refsiaðgerðir gegn Íran.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undirritað forsetatilskipun um refsiaðgerðir gegn Íran. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt að hann muni fylgja refsiaðgerðum gegn Íran eftir af fullri hörku, í kjölfar þess að bandarísk stjórnvöld sögðu sig frá alþjóðlegu kjarnorkusamkomulagi við Íran nú vor. 

Viðskiptabannið og refsiaðgerðir því tengdar tekur gildi á miðnætti í kvöld, en þeim er fyrsta kastið beint gegn bílaiðnaði í Íran sem og viðskiptum með gull og aðra málma. Geta þeir einstaklingar eða fyrirtæki sem brjóta gegn viðskiptabanninu búist við „alvarlegum afleiðingum“.

BBC segir Trump sannfærðan um að efnahagsþrýstingur muni neyða írönsk stjórnvöld til að gera nýjan samning og binda þar með endi á „illar“ gjörðir þeirra.

Bresk, frönsk og þýsk stjórnvöld sem einnig áttu aðild að kjarnorkusamkomulaginu, sem gert var við Íran 2015, hafa sagst harma aðgerðir Bandaríkjanna. Ríkin áttu, ásamt Kína og Rússlandi, aðild að samkomulaginu sem hljóðaði upp á að að Íran léti af öll­um kjarn­orku­tilraun­um sín­um og að refsiaðgerðum í garð rík­is­ins yrði þess í stað hætt.

Hafa ríkin heitið því að virða samkomulagið við Íran og hafa írönsk stjórnvöld sagst munu gera það sama, svo framarlega sem ríkið hagnist á því.

Í forsetatilskipunin Trumps sem tekur gildi á miðnætti í kvöld kemur fram að refsiaðgerðum verði beitt vegna kaupa íranskra stjórnvalda á bandarískum dollurum, kaupa á írönsku myntinni riad og lána til íranska ríkisins, auk áðurnefnds banns með kaup og sölu á gulli og málmum og viðskipta við íranska bílaiðnaðinn.

Enn frekari höft taka svo gildi 5. nóvember á þessu ári, og munu refsiaðgerðirnar þar eftir einnig taka til hafna Írans, orku-, olíu- og skipaiðnaðar.

„Það gleður mig að mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa þegar tilkynnt að þau ætli að yfirgefa íranska markaðinn og nokkur lönd hafa gefið til kynna að þau muni draga úr eða hætta innflutningi á íranskri hráolíu,“ sagði í yfirlýsingu frá forsetanum.

„Við hvetjum allar þjóðir til að taka sambærileg skref til að valkostirnir sem írönsk stjórnvöld standa frammi fyrir séu skýrir.“ Annaðhvort breyti írönsk stjórnvöld „ógnandi, ótraustvekjandi hegðan sinni og taki á ný þátt í alþjóðaefnahagslífinu eða þau haldi áfram leið sinni að efnahagslegri einangrun“.

Írönsk stjórnvöld hafa ekki brugðist við tilkynningunni, en Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, hafði áður sagt að það væru Bandaríkin sem væru að einangra sig.

Það væri erfitt að sjá fyrir sér að semja við einhvern sem hefði ógilt samkomulag sem hefði tekið svo langan tíma að ná. „Hver trúir því að Trump sé alvara varðandi viðræður?“ sagði hann.

Utanríkisráðherrar Bretlands, Frakklands og Þýskalands, ásamt yfirmanni utanríkismála ESB, sendu í sameiningu frá sér yfirlýsingu um að kjarnorkusamkomulagið virki og sé „nauðsynlegt“ fyrir alþjóðaöryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert