Tilbúin með framsalsbeiðni vegna Skripal

Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia. …
Sergei Skripal við réttarhöldin í Rússlandi og dóttir hans Yulia. Bresk yfirvöld eru nú tilbúin með framsalsbeiðni vegna Rússanna sem taldir eru hafa staðið að taugagasárásinni.

Bresk stjórnvöld eru tilbúin með framsalsbeiðni til rússneskra stjórnvalda vegna tveggja manna, sem grunaðir eru um að standa að baki taugagasárásinni á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans. Árásin var gerð í mars á þessu ári, en Skripal-feðginin fundust meðvitundarlaus í verslunarmiðstöð í bænum Salisbury á Englandi og voru bæði hætt komin eftir árásina.

Breska dagblaðið Guardian hefur eftir heimildamönnum innan stjórnsýslunnar að saksóknari hafi lokið við gerð framsalsbeiðninnar og að hún sé tilbúin til sendingar. Rússneska sendiráðið í London segir hins vegar að enn hafi ekki borist opinber beiðni frá breskum stjórnvöldum.

Bresk stjórnvöld hafa kennt rússneskum yfirvöldum um taugagasárásina, en Novichok-eitrið sem notað var var þróað af sovéska hernum á áttunda áratug síðustu aldar. Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað neitað allri aðild að árásinni.

Bannar framsal rússneskra ríkisborgara

Guardian segir rússnesk stjórnvöld ólíkleg til að fallast á framsalsbeiðnina. Hún auki enn fremur hættuna á enn meiri spennu milli ríkjanna, en samskipti Rússlands og Bretlands hafi ekki verið verri frá því í kalda stríðinu.

Stjórnarskrá Rússlands bannar framsal rússneskra ríkisborgara til annarra ríkja. Þá neituðu rússnesk yfirvöld að framselja þá sem grunaðir voru um morðið á fyrrverandi leyniþjónustumanninum Al­ex­and­er Lit­vin­en­ko í London 2006, en til verks­ins var notað geisla­virkt eit­ur sem sett var út í te sem hann drakk. 

Guardian segir hundruð breskra lögreglumanna og leyniþjónustumanna hafa tekið þátt í að rekja ferðir Rússanna tveggja, sem grunaðir eru um taugagasárásina á Skripal-feðginin, allt frá því að þeir komu til Bretlands og þar til þeir yfirgáfu landið.

Breska innanríkisráðuneytið og embætti ríkissaksóknara hafa neitað að tjá sig um málið.

Bresk kona, Dawn Sturgess, lést í síðasta mánuði eftir að hafa fundið litla flösku sem innihélt Novichok-eitrið. Maki hennar, Charlie Rowley, veiktist einnig alvarlega eftir að hafa komist í snertingu við eitrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert