Bað um lausn eiginmannsins

Myu, eiginkona Jumpei Yasuda, á blaðamannafundinum.
Myu, eiginkona Jumpei Yasuda, á blaðamannafundinum. AFP

Eiginkona japansks blaðamanns sem var rænt í Sýrlandi fyrir rúmum þremur árum rauf þögnina í dag og bað um að honum yrði sleppt eftir að hann sást í myndbandi sem var birt í síðustu viku.

Jumpei Yasuda, 44 ára blaðamanni í lausamennsku, var rænt í júní 2015. Í myndbandinu sást að hann var í slæmu ásigkomulagi.

„Það eru margir í Japan, fjölskylda hans, ættingjar og vinir sem bíða eftir eiginmanni mínum,“ sagði eiginkona hans Myu á blaðamannfundi í Tókíó.

„Skilið eiginmanni mínum heilum á húfi eins fljótt og mögulegt er,“ sagði hún með tárin í augunum. „Sem eiginkona hans og fjölskylda vil ég að hann stígi aftur fæti á japanska grund.“

Yasuda Jumpei í myndbandinu.
Yasuda Jumpei í myndbandinu. AFP

Yasuda og Ítalinn Alessandro Sandrini birtust í tveimur myndböndum í síðustu viku. Þeir voru báðir í appelsínugulum klæðnaði og fyrir aftan þá stóðu vopnaðir menn.

Myu, sem giftist Yasuda árið 2008, sagðist ekki hafa viljað að tjá sig opinberlega um málið af ótta við að það myndi hafa áhrif á samningaviðræður um lausn hans.

Í myndbandinu sagðist Yasuda vera kóreskur og gaf upp annað nafn en talaði aftur á móti á japönsku.

AFP

Hann sagði myndbandið hafa verið tekið upp 25. júlí. Ástand hans væri slæmt og hann þyrfti á hjálp að halda.

Ekkert kom fram um hverjir halda þeim föngnum eða hverjar kröfur mannræningjanna eru.

Talið er að samtök sem áður hétu Al-Nusra Front, sem tengdust Al-Kaída, hafi rænt honum í norðurhluta Sýrlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert