Viðskiptabannið „sálrænn hernaður“

Hassan Rouhani, forseti Írans.
Hassan Rouhani, forseti Írans. AFP

Viðskiptabann Bandaríkjastjórnar gegn Íran hófst í nótt, nokkrum klukkutímum eftir að forseti Írans tilkynnti í sjónvarpi að hann væri tilbúinn að hefja viðræður þegar í stað. Hann hefur hingað til ekki tekið undir boð Donalds Trump Bandaríkjaforseta um fund.

Bannið verður sett á í tveimur skrefum og var það fyrra stigið klukkan 4.31 í nótt að íslenskum tíma. Hassan Rouhani Íransforseti hefur fordæmt bannið og sagt það „sálrænan hernað“ sem hafi það að markmiði að sundra írönsku þjóðinni.

Fyrra skref bannsins nær til ýmissa geira, s.s. bílaiðnaðarins. Í næstu skrefum verða olíuviðskipti tekin fyrir, segir í frétt BBC um málið.

Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa talað gegn þessum aðgerðum bandarískra stjórnvalda.

Aðgerðirnar felast m.a. í því að írönskum stjórnvöldum er bannað að kaupa bandaríska peningaseðla og bann hefur verið sett á viðskipti með gull og aðra eðalmálma, ál, stál, kol og hugbúnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert