Þurrkar herja á allt fylkið

Varla stingandi strá fyrir sauðféð í New South Wales.
Varla stingandi strá fyrir sauðféð í New South Wales. AFP

Gríðarlegir þurrkar eru um allt fjölmennasta fylki Ástralíu, New South Wales. Mjög þurrt hefur verið á svæðinu í vetur og eru þurrkarnir í austanveðri Ástralíu þeir mestu í manna minnum.

Um fjórðungur allra landbúnaðarafurða Ástralíu eiga uppruna sinn í fylkinu. Í dag hefur „100% þurrki“ opinberlega verið lýst yfir. Verið er að skipuleggja neyðaraðstoð til íbúa. 

„Allir íbúar fylkisins vonast eftir að fá rigningu fyrir bændurna okkar,“ segir einn af ráðherrum fylkisins, Niall Blair, í samtali við BBC.

Haustið í suðurhluta Ástralíu var það næstþurrasta frá upphafi mælinga. Úrkoma var 57 mm undir meðallagi. Í júlí mældist innan við 10 mm úrkoma á svæðum í New South Wales og á næstu mánuðum er enn spáð þurrviðri.

Bændur hafa lýst horfelli á skepnum. Uppskeran hefur brugðist og vatn er af skornum skammti. „Þetta er eins og að vera í fangelsi alla daga,“ segir bóndinn Ashley Gamble. Bændur hafa orðið að selja frá sér skepnur þar sem þeir eiga ekkert til að gefa þeim að éta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert