17 ára drengur játar morðið

Sunniva Ødegård, 13 ára stúlka, fannst látin á göngustíg skammt …
Sunniva Ødegård, 13 ára stúlka, fannst látin á göngustíg skammt frá heimili sínu aðfaranótt 30. júlí. 17 ára drengur hefur játað fyrir lögreglu að hafa orðið henni að bana.

Sautján ára drengur, sem hefur verið grunaður um að hafa myrt hina 13 ára gömlu Sunnivu Ødegård í Varhaug í Noregi, hefur játað fyrir norskri lögreglu að hafa orðið stúlkunni að bana aðfaranótt 30. júlí. Samkvæmt umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK standa yfirheyrslur yfir drengnum enn yfir á stöð rannsóknarlögreglunnar KRIPOS í Bergen.

„Sá grunaði sagði í fyrstu að hann hafi fyrir tilviljun verið á staðnum þar sem stúlkan fannst, en að hann hafi ekkert haft með morðið að gera. Hann hefur breytt frásögn sinni og segist nú hafa framkvæmt drápið,“ segir Lars Ole Berge hjá suðvesturumdæmi lögreglunnar.

Gaf sig sjálfur fram sem vitni

Drengurinn réðst á stúlkuna þegar hún var á leið heim og hefur hann sagt lögreglu að Sunniva hafi verið valin sem fórnarlamb af algjörri tilviljun.

Þá var hún beitt harkalegu ofbeldi á tveimur stöðum. Annars vegar við steintröppur skammt frá staðnum þar sem hún fannst og svo á öðrum stað sem ekki er greint frá. Drengurinn flutti síðan lík hennar á þann stað sem hún fannst á.

Talsmenn lögreglunnar segja að næstu skref séu að skoða sönnunargögn og vettvang frekar til þess að athuga hvort það samræmist frásögn drengsins.

Skömmu eftir að Sunniva fannst gaf drengurinn sig fram sem vitni í málinu. Skömmu seinna hlaut drengurinn stöðu grunaðs manns.

Fannst skammt frá heimili sínu

Sunniva hafði verið hjá vini sínum og átti hún að vera kom­in heim klukk­an 23:00. Þegar hún skilaði sér ekki fór faðir stúlk­unn­ar að leita að henni og rakst hann á lög­reglu­bif­reið sem var í smá­bæn­um vegna til­kynn­ing­ar um inn­brot. Upp­lýsti hann lög­regl­una um stöðu mála sem hóf leit að stúlk­unni ásamt nokkr­um íbú­um og fannst lík stúlkunnar um klukk­an 03:10 á göngu­stíg skammt frá heim­ili henn­ar.

Stuttu eftir að Sunniva fannst var það tilgáta lögreglunnar að hún hafi verið myrt og var það rökstutt með vísun í verksummerki á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert