Börn féllu í árás í Jemen

Barn liggur sært á sjúkrahúsi eftir árásina í morgun.
Barn liggur sært á sjúkrahúsi eftir árásina í morgun. AFP

Mannskæð árás var gerð á rútu með börnum í norðurhluta Jemen í dag, að sögn Rauða krossins þar í landi. Sjónvarpsstöð húta, hóps sem er með yfirráð á svæðinu, segir að 39 hafi látist og 51 særst í árásinni. Í Twitter-færslu frá Rauða krossinum segir að rútan hafi verið á ferð í borginni Saada er árásin var gerð. „Samkvæmt alþjóðlegum lögum verður að vernda almenna borgara í átökum,“ segir í færslunni.

Sjónvarpsstöð húta, Al Masirah, greinir frá því að flestir hinna látnu séu börn. Hútar saka hernaðarbandalag Sádi-Araba, sem m.a. nýtur stuðnings Bandaríkjamanna, um að bera ábyrgð á árásinni. Þeir segja að um loftárás hafi verið að ræða. 

Hernaðarbandalagið hefur ekki tjáð sig um málið en það hóf afskipti af borgarastríðinu í Jemen árið 2015. Um 10 þúsund manns hafa látið lífið í átökunum upp frá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert