Fengu loks að koma að landi

Flóttamennirnir höfðu hafst við í gúmmíbát í yfir 50 klukkustundir.
Flóttamennirnir höfðu hafst við í gúmmíbát í yfir 50 klukkustundir. AFP

Skip, sem 87 flóttamönnum var bjargað í undan ströndum Líbíu, þurfti að koma að landi á Spáni í dag eftir að hafa siglt dögum saman um Miðjarðarhafið án þess að fá leyfi til að koma til Ítalíu. Þetta er í þriðja sinn sem Spánverjar heimila slíkum skipum að koma að landi eftir að þau hafa fengið neitun frá Ítölum.

Skipið er á vegum spænsku góðgerðarsamtakanna Proactiva Open Arms. Það kom að landi í snemma í morgun í San Roque sem er handan við hafið frá Gíbraltar. 

Flóttamennirnir eru flestir frá Súdan, m.a. frá Darfur-héraði. Þeir höfðu verið á reki um Miðjarðarhafið í gúmmíbát í um 50 klukkustundir, án drykkjarvatns, er þeim var bjargað. Sumir í hópnum höfðu þá fengið alvarleg brunasár. Þeim var bjargað úr sjávarháskanum 2. ágúst.

Í hópnum eru 75 karlmenn og tólf drengir. Talsmaður mannúðarsamtakanna segir að margir þeirra hafi sætt ofbeldi í Líbíu.

Spænsk yfirvöld opnuðu í skyndi flóttamannabúðir í San Roque til að taka við flóttafólki sem finnst á Miðjarðarhafi í hundraðavís í hverri viku.

Þar sem Ítalir hafa tekið þá afstöðu að synja flóttafólki af Miðjarðarhafi um landgöngu hefur Spánn orðið það Evrópuland sem tekur við flestum flóttamönnum sem eru á flótta frá Afríku til Evrópu.

Í ár hafa um 23.700 manns komið sjóleiðina til Spánar og hafa að minnsta kosti 307 dáið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið. Það er meiri fjöldi en drukknaði allt síðasta ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert