„Hún er að breyta heiminum“

Háhyrningskýrin hefur nú borið dauðan kálfinn um hafið í um …
Háhyrningskýrin hefur nú borið dauðan kálfinn um hafið í um sautján daga. Ljósmynd/NOAA

„Ég hef haldið á látnu barni mínu. Treystið mér, þú vilt aldrei sleppa takinu,“ skrifar Sue Phelps Baker á Facebook í dag við frétt Seattle Times um háhyrningskúna sem í yfir tvær vikur hefur synt með dauðan kálf sinn um hafið undan norðvesturströnd Kanada. „Þegar ég missti barnið mitt þá vildi ég ekki sleppa því. Ég skil þjáningar móðurinnar og þekki þær of vel,“ skrifar Desiree Pyle.

Hundruð hafa skrifað sambærileg skilaboð á samfélagsmiðla við fréttir af sorglegu ferðalagi kýrinnar Tahlequah sem nýtur stuðnings fjölskyldu sinnar á sundinu. Hún hefur veitt listamönnum innblástur; ljóð hafa verið samin og málverk máluð.

Sorg Tahlequah hefur ekki aðeins snert strengi í hjörtum fólks víða um heim heldur hefur hún orðið til þess að ákveðið hefur verið að grípa til neyðaraðgerða til bjargar hinum hverfandi stofni suðlæga staðbundna háhyrningsins í Norðvestur-Kyrrahafi. Stofninn telur nú aðeins 75 dýr og litla háhyrningskvígan, sem fæddist Tahlequah eftir sautján mánaða meðgöngu 24. júlí, er fyrsta lifandi fædda afkvæmi fjölskyldunnar í þrjú ár. En hálftíma eftir að hún kom í heiminn var hún öll. Undanfarin tuttugu ár hafa fjörutíu kálfar fæðst í fjölskyldunni en 72 dýr drepist.

Fólk um allan heim fylgist hryggt með fréttum af Tahlequah og dauða kálfinum, sem hún ýmist ýtir áfram, ber á bægslunum eða heldur varfærnislega á í kjaftinum. Og fjölmargar spurningar hafa vaknað.

Hvers vegna hagar háhyrningskýrin sér með þessum hætti? Er hún sorgmædd? Hví er stofninn í svo mikilli útrýmingarhættu og er eitthvað hægt að gera til að bjarga fjölskyldu Tahlequah?

Þegar litla kvígan fæddist, umvafin öllum í fjölskyldunni, var hún horuð og hafði ekki nóg spik utan á sér til að fljóta. Móðirin ýtti henni stöðugt upp á yfirborðið svo hún gæti andað. Eftir að litla kvígan drapst, hálftíma eftir fæðingu, hélt hún þessu áfram.

Það er ekki létt verk. Tahlequah syndir tugi kílómetra um hafið á hverjum degi. Það tekur á að halda hræi kálfsins uppi við yfirborðið. Það sekkur annað slagið og þarf hún þá að kafa eftir því og ýta því aftur upp. Einnig þarf hún annað slagið að sleppa því til að geta andað sjálf. Hún hefur fjölskylduna sína sér til aðstoðar og segja vísindamenn að hún aðstoði móðurina m.a. við fæðuöflun. En þrek hennar hlýtur að fara að minnka. 

Hegðun sem þessi er ekki óþekkt meðal annarra dýra. Þekkt er að höfrungar, búrhvalir og simpansar, svo dæmi séu tekin, beri dauð afkvæmi sín um hríð. En núna eru að verða komnir sautján sólarhringar frá því að kálfur Tahlequah gaf upp öndina. Og enn syndir hún um með hræið.

Hún vill ekki sleppa

Háhyrningar eru greindar og félagslyndar skepnur. Þeir mynda sterk tengsl sín á milli, sérstaklega við afkvæmi sín. Margir vísindamenn telja engan vafa leika á að þeir geti orðið sorgmæddir.

„Það er augljóst hvað er í gangi. Það er ekki hægt að túlka þetta með öðrum hætti. Þetta er dýr sem er að syrgja dauða afkvæmis síns og hún vill ekki sleppa. Hún er ekki tilbúin til þess,“ segir Deborah Giles, líffræðingur við Háskólann í Washington, sem fylgst hefur með ferðum háhyrningsfjölskyldunnar í Puget-sundi vikum saman.

Henni kemur því ekki á óvart að fólk sem hafi misst barn tengi við málið.

Suðlægi staðbundni háhyrningsstofninn heldur til í norðvestanverðu Kyrrahafi.
Suðlægi staðbundni háhyrningsstofninn heldur til í norðvestanverðu Kyrrahafi. Af vef NOAA

Barbara King, prófessor í mannfræði, tekur undir þetta. Hún hefur rannsakað sorgarviðbrögð ýmissa dýrategunda í fjölda mörg ár. „Hún á erfitt. Hún er að nota ótrúlega mikla orku í þetta. Hún er ekki að haga sér með hefðbundnum hætti og er ekki að hugsa vel um sjálfa sig.“ King kemur ekki á óvart að mannfólk sýni henni samúð. „Við tökum mikla áhættu með því að afneita tengingunni við önnur dýr,“ segir hún.

Aðrir vísindamenn vilja sýna meiri varfærni við að yfirfæra mannlegar tilfinningar á háhyrninginn. „Margir eru fljótir að túlka þessa hegðun sem sorg,“ segir Kaeli Swift, doktorsnemi í umhverfisfræðum við Háskólann í Washington. „Það er margt við dýr sem við teljum auðvelt að skilja út frá okkar eigin upplifun en við verðum að gæta þess að skilja að á milli þess hvernig okkur líður vegna þessa og hvað er í gangi hjá þessari háhyrningskú.“

Lori Marino, sjávarspendýrasérfræðingur til áratuga, er hins vegar á þeirri skoðun að kýrin sé að upplifa svipað og það sem menn upplifi við missi. „Það er svo auðvelt að finna til með henni og því sem hún er að ganga í gegnum. Þetta er afkvæmið sem hún gekk með í næstum átján mánuði. Hún fékk stuttan tíma með því, aðeins þrjátíu mínútur, og svo horfði hún á það drepast.“

Ættmæður í leiðtogahlutverki

Fá önnur spendýr heimsins búa yfir jafnmikilli félagslegri færni og háhyrningar. Þeir hafast við í hópum þar sem kvendýrin ráða för. Í þessum hópum má oft finna fjórar kynslóðir og það eru elstu kýrnar sem eru við stjórnvölinn. Þessar ættmæður geta jafnvel náð hundrað ára aldri. Háhyrningskýr eru í hópi örfárra annarra tegunda sem fara á breytingaskeið líkt og konur. Ættmæðurnar hafa nefnilega öðru hlutverki að gegna en að ala af sér afkvæmi: Þær eru „ljósmæður“, fóstrur, kennarar og leiðtogar. Svo mikilvægu hlutverki gegna mæður, ömmur og langömmur í hópi háhyrninga að séu afkvæmin tekin af þeim á unga aldri ná þau aldrei þeirri færni sem þau annars hefðu öðlast.

Vilja fjarlægja stíflurnar

Og þá að spurningunni hvers vegna háhyrningarnir eru útrýmingarhættu. Þar kemur margt til.

Stofninn, sem telur aðeins 75 dýr, heldur til á hafsvæði undan norðvesturströndum Kanada og Bandaríkjanna, skammt fyrir utan Seattle. Hans helsta fæða er chinook-laxinn. Eitt sinn var nóg af honum á þessum slóðum en svo er ekki lengur. Þrír hópar dýra úr stofninum fara ár hvert út úr Salish-hafi til að elta laxinn eftir Kyrrahafsströndinni.

Vísindamenn vakta háhyrningskúna vel.
Vísindamenn vakta háhyrningskúna vel. Af vef NOAA

En stíflur, loftslagsbreytingar, ofveiðar og mengun, ekki síst hljóðmengun frá bátum, hafa haft áhrif á stofnstærð laxins. Við þessu hafa umhverfisverndarsinnar, fulltrúar frumbyggja og sjómanna varað í áratugi. Helsta krafa þeirra hefur verið að stíflur í Snake-ánni verði fjarlægðar. Þá hefur einnig verið lagt til að fækkað verði í stofni sæljóna sem eru líkt og háhyrningar sólgin í chinook-laxinn. Lagt hefur verið til að bæði Kanada- og Bandaríkjamenn dragi úr veiðum á laxinum og einnig að fjármunum verði varið til fiskeldis, sérstaklega til handa háhyrningunum.

Breytingar í farvatninu

„Hún er að breyta heiminum, núna hlustum við. Það er henni að þakka,“ skrifar Brooke Hammett í morgun við frétt Seattle Times um Tahlequah.

Vísar hún þar til aðgerðaáætlunar til bjargar ungri og veikri kú í fjölskyldunni. Bandarísk yfirvöld hafa þegar gefið vísindamönnum leyfi til að koma æti til hennar og gefa henni sýklalyf með einhverjum hætti og þau kanadísku hafa tekið tillögurnar til skoðunar. Verði ekkert að gert mun kýrin drepast á næstu dögum.

Ken Balcomb, stofnandi miðstöðvar hvalarannsókna í Washington-ríki, segir að vonandi hafi málið hreyft þannig við fólki að ákveðið verði að taka niður stíflur í Snake-ánni svo að laxinn eigi auðveldara með að ganga upp hana.  

Háhyrningarnir við Kanada eru oft fullir af lífsgleði. Vísindamenn segja …
Háhyrningarnir við Kanada eru oft fullir af lífsgleði. Vísindamenn segja stofninn tala sitt eigið tungumál. Af vef World Wildlife Fund

Jason Colby, sagnfræðingur við háskólann í Victoria, segir fréttir af sundi Tahlequah með kálfinn hryggilega dæmisögu. Hann hefur skrifað bók um háhyrninga og þann tíma sem þeir voru veiddir eða fangaðir og settir í dýragarða. Það urðu örlög einhverra dýra úr stofninum í Norðvestur-Kyrrahafi. Hann segir að háhyrningar eigi það til að synda um með hræ kálfa sinna en hin langa ferð Tahlequah um hafið eigi sér líklega fá fordæmi. „Sem faðir get ég aðeins ímyndað mér sorg hennar og allt það sem hún hefur þurft að ganga í gengum.“

Margir óttast þó að of seint sé að bregðast við; háhyrningsstofninn muni deyja út. „Ég eignaðist mitt fyrsta barnabarn á þessu ári,“ segir Norma Sanchez, fulltrúi frumbyggja í Colville sambandsráðinu í Washington. „Mér þykir slæmt til þess að hugsa að þegar það barn verður fullorðið gæti það sagt: „Ég velti því fyrir mér hvers vegna háhyrningarnir dóu út og af hverju við gerðum ekkert til að vernda þá“.“

Greinin er byggð á fréttum New York Times, Washington Post, Seattle Times, CBSGuardian o.fl.

mbl.is