Syndir enn með dauðan kálfinn

Háhyrningskýrin syndir með hræ kálfsins um hafið.
Háhyrningskýrin syndir með hræ kálfsins um hafið.

Háhyrningskýrin Tahlequah syndir enn með dauðan kálf sinn um hafið undan vesturströnd Kanada. Vísindamenn óttast um líf hennar. Kýrin sást enn bera hræið seint í gærkvöldi og hafði þá gert það í sextán daga samfellt. Tahlequah bar kálfi sínum 24. júlí. Hann lifði aðeins í hálftíma. 

„Ég er algjörlega miður mín,“ segir líffræðingurinn Deborah Giles, sem starfar við háskólann í Washington, í samtali við blaðmann Seattle Times. Giles er í hópi þeirra vísindamanna sem gaumgæfilega hafa fylgst með háhyrningnum síðustu vikur. „Ég græt. Ég trúi því ekki að hún sé enn með kálfinn.“

Giles segist óttast um heilsu Tahlequah, jafnt þá andlegu sem líkamlegu. Hún segir fjölskyldu Tahlequah aðstoða hana við fæðuöflun en engu að síður sé ólíklegt að hún sé að fá þá næringu sem hún þurfi.

Vísindamenn fylgjast gaumgæfilega með kúnni sem í skrám þeirra kallast J35. Hún tilheyrir litlum stofni háhyrninga í Norðvestur-Kyrrahafi sem aðeins telur 75 dýr og er í mikilli útrýmingarhættu. Yngri kýr í hópnum er veik og er nú verið að leita samþykkis yfirvalda á áætlun sem miðar að því að bjarga lífi hennar. Fjölskyldan hefur ekki komið afkvæmi á legg í þrjú ár.

Sú kýr, J50, sást einnig í gær en vísindamennirnir telja að fjölskyldan haldi enn öll hópinn. Starfsmenn banda­rísku Haf- og lofts­lags­stofn­un­ar­inn­ar, NOAA, skiluðu í gær inn gögnum til kanadískra yfirvalda um aðgerðaáætlun til bjargar hinni ungu kú. Hópurinn syndir nú á kanadísku hafsvæði. Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir því að koma sýklalyfjum í J50, mögulega með því að sprauta hana. Öll tilskilin leyfi til aðgerðanna hafa fengist hjá yfirvöldum í Washington-ríki.

Að svelta í hel

Há­hyrn­ing­arn­ir eru í raun­inni að svelta í hel, lík­lega vegna þess að þeirra aðalfæða, chinook-lax­inn, er nú af skorn­um skammti. Há­hyrn­ing­ar éta venju­lega um 30 slíka fiska á dag en þar sem löx­un­um hef­ur fækkað á búsvæðum há­hyrn­ing­anna hafa þeir orðið að eyða meiri orku en áður í að veiða smærri bráð.

Önnur ógn steðjar einnig að há­hyrn­inga­stofn­in­um; tvö­föld­un Trans Mountain-olíu­leiðslunn­ar. Við það mun olíu­flutn­inga­skip­um, sem fara um búsvæði há­hyrn­ing­anna, fjölga sjö­falt. Til stend­ur að hefja fram­kvæmd­ir nú í ág­úst en fjöl­mörg nátt­úru­vernd­ar­sam­tök hafa varað við hætt­unni sem aukn­ir olíu­flutn­ing­ar gætu skapað í þessu viðkvæma vist­kerfi hafs­ins.

Suðlægi, staðbundni háhyrningsstofninn heldur til í norðvestanverðu Kyrrahafi.
Suðlægi, staðbundni háhyrningsstofninn heldur til í norðvestanverðu Kyrrahafi. Af vef NOAA

Al­mennt eru of­an­greind atriði tald­ar helstu skýr­ing­arn­ar á fækk­un í stofni há­hyrn­inga á þess­um slóðum en fleira gæti þó komið til. Vís­inda­mönn­um tekst mjög sjald­an að kryfja hræ há­hyrn­inga því þau sökkva oft­ast til botns eða skol­ar á land á af­skekkt­um svæðum. Ekki er úti­lokað að sjúk­dóm­ar hrjái fjöl­skyld­una, mögu­lega veiru­sýk­ing­ar sem borist hafa í hana frá mönn­um.

Þá er einnig mögu­legt að breyt­ing­ar á haf­straum­um og þar með hita­stigi sjáv­ar hafi áhrif. Massi sjáv­ar, sem fengið hef­ur upp­nefnið „hitak­less­an“ (TheBlob), hef­ur t.d. hækkað hita­stig sjáv­ar á af­mörkuðum svæðum í Kyrra­hafi um allt að sex gráður.

Suðlægi, staðbundni há­hyrn­ing­ahópurinn, sem Tahlequah tilheyrir, held­ur yf­ir­leitt til í Sal­ish-hafi í þröngu sundi milli Brit­ish Col­umb­ia og Washingt­on-rík­is. Stofn­inn elt­ir chinook-lax­inn en þar sem hon­um hef­ur fækkað hef­ur ferðamynst­ur há­hyrn­ing­anna breyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert