Hópslagsmál við gosbrunninn

Hópur ferðamanna við Trevi-gosbrunninn í Róm.
Hópur ferðamanna við Trevi-gosbrunninn í Róm. AFP

Hópslagsmál brutust út við hinn fræga Trevi-gosbrunn í Róm vegna harðrar samkeppni um besta staðinn til að taka sjálfsmynd.

Nítján ára stúlka frá Hollandi og 44 ára bandarísk kona ætluðu að stilla sér upp við brunninn á sama stað til að taka sjálfsmynd. Þetta var á miðvikudagskvöld en á þeim tíma sólarhrings koma flestir að upplýstum gosbrunninum til að taka myndir. Í fyrstu skiptust konurnar á orðum en svo kom til átaka. Ættingjar kvennanna blönduðu sér svo í leikinn.

Hvorug konan vildi gefa eftir, að því er ítalska dagblaðið La Repubblica greinir frá. Að endingu höfðu brotist út hópslagsmál sem átta manns tóku þátt í.

Tveir lögreglumenn komu á vettvang og leystu slagsmálin upp en aðeins nokkrum mínútum síðar hófust þau að nýju og þurfti að kalla fleiri lögreglumenn á vettvang til að stilla til friðar.

Slagsmálahundarnir hlutu aðeins minniháttar meiðsli, s.s. marbletti, en þeir hafa verið ákærðir vegna ólátanna.

Trevi-gosbrunnurinn var hannaður af arkitektinum Nicola Salvi. Giuseppe Pannini lauk við gerð hans árið 1762. 

Frétt Guardian um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert