Mæðgurnar komnar aftur til Bandaríkjanna

Mæðgurnar Lola Vargas og Athena frá Mexíkó eru í hópi …
Mæðgurnar Lola Vargas og Athena frá Mexíkó eru í hópi hælisleitenda sem bíða þess að mál þeirra verði tekið fyrir í Bandaríkjunum. AFP

Alríkisdómari í Bandaríkjunum fyrirskipaði í gær að flogið yrði með mæðgur aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa komist að því að þeim var vísað úr landi á meðan umsókn þeirra um hæli var enn til skoðunar hjá yfirvöldum. Mæðgurnar eru frá El Salvador.

Mannúðarsamtökin American Civil Liberties Union (ACLU) kærðu brottvísunina og segja mæðgurnar hafa verið að flýja grimmilegt ofbeldi í heimalandi sínu.

Dómarinn segir það óásættanlegt að þeim hafi verið vísað úr landi á meðan þær bíða niðurstöðu áfrýjunar á brottvísuninni.

Hann segir mögulegt að dómsmálaráðherrann Jeff Sessions verði ávíttur vegna málsins. 

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Jeff Sessions, verður mögulega ávíttur vegna málsins.
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Jeff Sessions, verður mögulega ávíttur vegna málsins. AFP

ACLU hefur kært brottvísun tólf kvenna og barna þeirra sem allar segjast hafa verið að flýja undan ofbeldi í heimalandi sínu.

Sessions herti reglur um dvalarleyfi í júní svo nú fá fórnarlömb heimilis- og gengjaofbeldis ekki almennt hæli í Bandaríkjunum. En ríkisstjórnin hét því að vísa engum í þeirri stöðu frá landinu fyrr en í fyrsta lagi í dag, föstudag. 

Forsvarsmenn ACLU komust hins vegar að því í gær að mæðgur hefðu þegar verið sendar með flugvél frá Bandaríkjunum til El Salvador, segir í frétt BBC um málið.

Alríkisdómarinn Emmet Sullivan í Washington fjallaði um málið í gær og komst að því að óásættanlegt væri að vísa fólki úr landi á meðan mál þess væri enn til skoðunar. Hann sagði brottvísun mæðgnanna forkastanlega og fyrirskipaði að þær yrðu fluttar aftur til Bandaríkjanna þegar í stað.

Reuters-fréttastofan segir í frétt sinni að bandarísk yfirvöld hafi farið að tilskipun dómarans og að mæðgurnar hefðu ekki yfirgefið flugvélina við komuna til El Salvador og væru nú aftur komnar til Texas. Þar eru þær í haldi yfirvalda.

Samkvæmt málsgögnum ACLU kom móðirin ásamt ungri dóttur sinni til Bandaríkjanna til að flýja kynferðisofbeldi sem eiginmaður hennar beitti hana í tvo áratugi. Þá hafi glæpagengi í El Salvador hótað henni lífláti. Bandarísk yfirvöldu töldu sig hins vegar hafa fundið sannanir fyrir því að ótti þeirra um ofsóknir væri ekki trúverðugur.

Frétt BBC

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert