Var svo furðulegt

Vélin sést hér á lofti skömmu áður en hún fór …
Vélin sést hér á lofti skömmu áður en hún fór heilan hring. Skjáskot úr myndskeiði John Waldron

Sjónarvottur sem tók myndskeið af flugvél sem var stolið af alþjóðaflugvellinum í Seattle í gærkvöldi segist hafa verið á kvöldgöngu þegar hann sá vélina á flugi og tvær orrustuþotur í humátt á eftir henni. Hann hélt fyrst að menn væru að æfa fyrir flugsýningu. „Ég fór því að mynda þetta, því mér þótti þetta svo furðulegt.“

Þetta sagði sjónarvotturinn John Waldron í samtali við CNN. 

Hann sagðist hafa séð flugvélina fara heilan hring í kjölfarið sem hafi verið ótrúlegt að sjá. Hann hélt að flugmaðurinn næði þessu ekki. Vélin flaug þá rétt yfir sjónum, varla meira en sem nam um 30 metrum.

Eftir það hafi flugmaðurinn stýrt vélinni beint upp í loft og næstum því drepið á vélinni. Hann náði hins vegar aftur jafnvægi og þá tók hann stefnu á eyjuna Ketron þar sem vélin brotlenti. 

Loka þurfti vellinum um stund eftir að maðurinn, sem er sagður vera 29 ára gamall flugvirki, stal vélinni og tók á loft án heimildar. Lögreglan hefur útilokað hryðjuverk og telur að þarna hafi einn maður verið á ferð í sjálfsvígshugleiðingum. Enginn annar var um borð í vélinni. 

Waldron segir að hann hafi verið viðbúinn að forða sér og leita skjóls. Þá heyrði hann sprengingu og mikinn eldblossa. „Ég sá reyk og hugsaði með mér. Guð minn góður; hann hefur brotlent.“

Búið er að spila upptöku af samtali flugmannsins við flugturninn. Hann þykir vera óvanalega rólegur miðað við aðstæður. 

„Til hamingju, þér tókst það,“ segir flugumferðarstjórinn við flugmanninn. „Nú skaltu snúa vélinni við og lenda henni, og ekki slasa neinn á jörðu niðri.“

„Ég þekki þig ekki maður,“ heyrist flugmaðurinn svara. „Ég vil það ekki. Ég var að vona að þetta yrði bara svona, skilurðu.“

Töluverður eldur kviknaði í skóglendi á eyjunni í kjölfar brotlendingarinnar. Yfirvöld segja að enginn annar hafi slasast.

Að sögn lögreglu var um að ræða tveggja hreyfla vél af gerðinni Q400 sem er í eigu Horizon Air. Hún getur tekið um 76 farþega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert