Hefur sleppt dauðum kálfi sínum

Háhyrningarnir við Kanada eru oft fullir af lífsgleði.
Háhyrningarnir við Kanada eru oft fullir af lífsgleði. Af vef World Wildlife Fund

Háhyrningskýrin Tahlequah syndir ekki lengur með dauðan kálf sinn um hafið. Ken Balcomb, stofnandi Miðstöðvar hvalarannsókna í Washington-ríki, segist í samtali við blaðamann Seattle Times, hafa séð hana í gær synda fram hjá bát vísindamanna. Þá var hún í hópi annarra úr fjölskyldu sinni en án kálfsins. Hún hafi virst kraftmikil og heilbrigð. Hann segir þrekraun hennar að bera hræið í að minnsta kosti sautján daga og um 1.600 kílómetra leið því lokið, „sem betur fer“.

Síðast sást til hennar ýta hræinu á undan sér á sautjánda degi frá fæðingu hans. Kálfurinn lifði aðeins í hálftíma.

Tahlequah tilheyrir stofni suðlæga staðbundna háhyrningsins sem heldur til undan norðvesturströnd Kanada. Stofninn telur aðeins 75 dýr og er í bráðri útrýmingarhættu. Í frétt Seattle Times segir að kýrin hafi fætt heilbrigðan kálf árið 2010. Síðan þá hafi að minnsta kosti tvö afkvæmi hennar drepist.

Balcomb segir að gera megi ráð fyrir því að dauði kálfsins nú hafi verið henni þungbær. En nú virðist henni líða ágætlega og að einhverju leyti komin yfir sorgina. Hún virðist ekki vannærð og telur Balcomb víst að hún sé að nærast.

Háhyrningskýrin sást synda með hræ kálfsins um hafið í sautján …
Háhyrningskýrin sást synda með hræ kálfsins um hafið í sautján daga.

Fólk um allan heim hefur fylgst náið með fréttum af Tahlequah og ferðalagi hennar með hræ kálfsins um Kyrrahafið. Það hefur einnig fylgst vel með fréttum af annarri kú í hópnum sem er veik og vannærð. Vísindamenn vilja reyna að koma sýklalyfjum í hana og er unnið að neyðaráætlun henni til bjargar. Í dag á að reyna að gefa henni lax að éta en lax er eftirlætisfæða háhyrninganna.

Í gær komust vísindamennirnir nokkuð nálægt hinni ungu, veiku kú og sögðu að svo virtist sem ástand hennar væri betra en þeir höfðu talið í fyrstu. Hún er þó enn mjög horuð.

Háhyrningarnir eru að svelta vegna þess að chinook-laxinn, sem er þeirra helsta æti, er vanfundnari en áður. Ýmsar ástæður eru taldar fyrir því, m.a. hlýnandi sjór, hávaðamengun frá skipaumferð, stíflur í ám sem hamla göngu laxanna og fjölgun sæljóna sem einnig eru sólgin í laxinn. 

Vísindamenn frá bæði Bandaríkjunum og Kanada vinna að aðgerðaáætlun til bjargar háhyrningsstofninum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert