Lést eftir árás flóðhests

Flóðhestar eru um þrjú tonn að þyngd í fullri stærð …
Flóðhestar eru um þrjú tonn að þyngd í fullri stærð og geta verið mjög árásargjarnir. AFP

Kínverskur ferðamaður lést nýverið eftir að hafa verið bitinn í bringuna af flóðhesti í Kenýa. Atvikið varð þegar hann reyndi að ljósmynda dýrið. BBC greinir frá.

Maðurinn, Chang Ming Chuang, var 66 ára gamall. Hann elti dýrið á opnu náttúrulífssvæði við Lake Naivasha, 90 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Nairobi þar sem hann var á ferðalagi. 

Annar kínverskur ferðamaður slasaðist við árás flóðhestsins en þegar hafa sex manns látist af völdum flóðhesta á svæðinu það sem af er ári. 

Flóðhestar eru ein hættulegustu og stærstu spendýrin á landi. Þeir eru árásargjarnir, hafa beittar tennur og vega allt að þrjú tonn.

Vitni báru að ferðamennirnir tveir hefðu farið of nálægt dýrinu. Chuang var færður með hraði á spítala eftir bitið þar sem honum fossblæddi en lést af sárum sínum stuttu seinna.

Hinn maðurinn, Wu Peng Te, er á batavegi eftir að gert var að sárum hans. 

Vatnsyfirborð hefur risið mikið á svæðinu að undanförnu sem gerir það að verkum að stórt beitiland flóðhestanna er undir vatni. Því hafa þeir leitað nærri mannabyggðum og návígi manna og flóðhesta hefur þar með aukist til muna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert