Merkel: Dyflinnarreglugerðin virkar ekki

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist treysta á evrópskar lausnir.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist treysta á evrópskar lausnir. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að aðgerðir hennar til að finna „evrópska lausn“ á flóttamannavandanum í álfunni séu farnar að skila árangri. Hún segir að Dyflinnarreglugerðin virki ekki. Þetta kom fram á sameiginlegum fréttamannafundi sem hún átti með forsætisráðherra Spánar í gær, en Merkel var á Spáni í opinberri heimsókn.

Dyflinnarsamstarfið er liður í Schengen-samstarfinu og snýr að málsmeðferð í málefnum hælisleitenda. Því er ætlað að koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis ferðist á milli Schengen-landanna og sæki um hæli í hverju ríki.

Merkel segir að Evrópuríki við Miðjarðarhafið beri hitann og þungann af því að taka á móti flestum flóttamönnum sem koma til álfunnar. Hún segir enn fremur að tilraunir til að dreifa flóttafólki um álfuna hafi mistekist.

Samkvæmt tvíhliða samkomulagi sem var undirritað fyrr í þessum mánuði og tók formlega gildi í gær verður hægt að senda flóttafólk sem kemur til Þýskalands, en hafði þegar verið búið að skrá sig á Spáni, aftur til Spánar innan 48 klukkustunda. Merkel segir að markmið samkomulagsins sé að finna sanngjarna leið til að dreifa fjöldanum. 
Fram kemur á vef Politico, að samkomulagið sé einnig liður í því að skapa sátt á milli flokks Merkels, CDU, og systurflokksins, CSU, sem hafa verið ósammála um leiðir til að takast á við flóttamannavandann. 
Þýska blaðið Die Welt segir að undanfarna tvo mánuði hafi ekki komið upp neitt nýtt mál flóttafólks þar sem nýju reglurnar eiga við, og því talið að samkomulagið eigi aðeins við fámennan hóp flóttafólks. 
Merkel segir hins vegar að samningurinn sé góður og að Þýskaland og Spánn reiði sig á evrópskar lausnir og bætti við að Grikkir og Þjóðverjar vinni að gerð svipaðs samnings. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert