Brak flugvélarinnar óþekkjanlegt

Flugvél af gerðinni Bombardier Q400 eins og sú sem Russell …
Flugvél af gerðinni Bombardier Q400 eins og sú sem Russell stal á alþjóðaflugvellinum í Seattle. AFP

Bandaríska flugslysanefndin greindi í gærkvöldi frá því að búið væri að finna flugrita vélarinnar sem starfsmaður á alþjóðaflugvellinum í Seattle stal á föstudag. Brak vélarinnar, sem var af gerðinni Bombardier Q400, fannst í skóglendi Ketron-eyju í Puget-sundi, skammt undan ströndum Washington-ríkis.

Eftir að vélin hrapaði um 30 metra í gegnum þétt skóglendi brotnaði hún í fjölda lítilla stykkja, sem flest voru nógu lítil til að taka mætti þau upp með höndunum, að því er CNN-fréttastofan hefur eftir Debra Eckrote hjá flugslysanefndinni.

„Það var ekki hægt að greina að þetta væri flugvél, nema nokkra stærri hlutanna eins og vænghluta,“ sagði Eckrote. Flugritin væri hins vegar heill og verður hann rannsakaður til að skera úr um tildrög þess að vélin hrapaði.

Banda­ríski flug­her­inn sendi tvær orr­ustuþotur af gerðinni F-15 á vett­vang eft­ir að til­kynn­ing barst um að vél­inni hefði verið stolið og flogið af stað. Mörg mynd­skeið hafa birst á net­inu sem sýna þot­urn­ar á eft­ir farþega­vél­inni.

Þá sýndir myndband hvernig maðurinn, Rich­ard Rus­sell, sem starfaði á flugvellinum, flaug vélinni í lykkju áður en hann missti hana inn í skóglendið á Ketron-eyju.

Bandarísk yfirvöld hafa útilokað að um hryðjuverk hafi verið að ræða og þá er talið öruggt að Russell hafi verið einn á ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert