Hundruð farast í átökum um Ghazni

Reyk leggur frá Ghazni eftir árásir talibana.
Reyk leggur frá Ghazni eftir árásir talibana. AFP

Hundrað liðsmenn afgönsku öryggissveitanna hið minnsta hafa farist í átökum við talibana um borgina Ghazni undanfarna daga. AFP-fréttastofan hefur þetta eftir varnarmálaráðherranum, en stjórnarherinn hefur undanfarna fjóra daga reynt að hrekja sveitir talibana frá borginni.

„Um 100 liðsmenn öryggissveitanna hafa farist og 20-30 almennir borgarar,“ sagði Tariq Shah Bahrami varnarmálaráðherra á fundi með fréttamönnum. Liðsauki hefur verið sendur til borgarinnar og loftárásum hefur verið beint að stöðum þar sem talibanar eru taldir halda sig.

„194 vígamenn óvinanna, m.a. 12 lykilstjórnendur þeirra, hafa líka verið drepnir,“ bætti hann við. Eru 95 þeirra sagðir hafa fallið í loftárásum.

Samskiptakerfi liggja að mestu leyti niðri og segir AFP embættismenn hafa verið trega til að tjá sig um ástandið í borginni sem geri erfitt um vik að staðfesta þær fréttir sem þaðan berist.

BBC segir talibana reyna með árásinni á Ghazni að ná borginni á sitt vald, en héraðsyfirvöld á svæðinu sæta nú sívaxandi þrýstingi að hefja friðarviðræður við afgönsk stjórnvöld.  

Ghazni er við þjóðveg sem liggur milli Kabúl og Kandahar og gegnir því lykilhlutverki í tengslum við byggðir uppreisnarmanna í suðurhluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert