Kýr hjálpa til við betrun fanga

Alfreð kann vel við sig í kringum dýrin. Segir kýrnar …
Alfreð kann vel við sig í kringum dýrin. Segir kýrnar hafa róandi áhrif. AFP

Klukkan er rétt að verða sex að morgni og Alfreð hefur hafist handa við að mjólka kýrnar. Þegar verkinu lýkur mun hann hins vegar ekki snúa heim til sín, heldur fer hann aftur í fangaklefann sinn í Rodjan-fangelsinu í Svíþjóð, þar sem hann afplánar nokkurra mánaða dóm fyrir ólöglegan vopnaburð.

Alfreð er einn af 60 föngum fangelsisins sem eru í hálfgerðri aðlögun áður en þeir halda út í samfélagið að nýju. Aðlögunin og betrunin felst í að þeir sinna bústörfum á sveitabæ í Mariestad, um 300 kílómetra suðvestur af Stokkhólmi. Rodjan er opið landbúnaðarfangelsi, það stærsta sinnar tegundar í Svíþjóð, en þar er öryggisgæsla í lágmarki. 

Alfreð hefur setið inni frá því í apríl, en vonast til að ljúka afplánun í nóvember. Hann nýtur þess að eyða tíma með dýrunum á bænum og fá að mjólka kýrnar. Gleðin leynir sér ekki í augum hans, þegar blaðamaður AFP-fréttastofunnar hittir hann við störf sín.

Fangarnir sinna ýmsum bústörfum á bænum og það gengur mjög …
Fangarnir sinna ýmsum bústörfum á bænum og það gengur mjög vel. AFP

„Ég kann vel við kýrnar, þær hafa róandi áhrif á mig,“ segir Alfreð sem mjólkar kýrnar á bænum, ásamt félaga sínum, Sofian, í um tvo og hálfan tíma í senn á morgnana og svo aftur á kvöldin. „Ég þríf júgrin á kúnum svo það komist ekki bakteríur í mjólkina, áður en ég gríp í spenana,“ segir Alfreð, fullur af eldmóði.

Aðrir fangar sinna ýmsum tilfallandi störfum á bænum; vökva plöntur, mála, slá grasið og hafa umsjón með búfénaði.

Aðeins einn þriðji snýr aftur í fangelsi

Svíþjóð er það land í heiminum með hvað fæsta fanga miðað við höfðatölu. Þar eru 0,5 fangar á hverja 1.000 íbúa. Það eru helmingi færri fangar en til dæmis í Frakklandi, þar sem 1 fangi er á hverja 1.000 íbúa. Í umfjöllun AFP kemur fram að löndin í Skandinavíu eyði helmingi meira fjármagni í hvern fanga en gert í Frakklandi. Þar á meðal fanga sem eru undir eftirliti, en reynt er eftir fremsta megni að forðast fangelsun, ef hjá því má komast.

Í Svíþjóð er lagt meira upp úr betrun fanga heldur en löngum fangelsisdómum. Lögð er meiri áhersla á skilorðsbundna dóma þar sem meðal annars eru notuð ökklabönd til að fylgjast með ferðum einstaklinga. Þá eru einstaklingar gjarnan dæmdir til samfélagsþjónustu og það heyrir til undantekninga að menn afplána meira en tvo þriðju dóms, sýni þeir af sér góða hegðun. Einnig er lögð áhersla á það í betrunarvistinni að fangar geti sinnt bæði bóklegu og verklegu námi.

Góð reynsla er af opnum fangelsum í Svíþjóð.
Góð reynsla er af opnum fangelsum í Svíþjóð. AFP

„Þetta er kerfið sem við notum til að koma einstaklingum aftur út í samfélagið á jákvæðan hátt og draga úr líkum á að þeir snúi aftur í fangelsi,“ segir Britt-Marie Johansson, fangelsisstjóri í Rodjan. Fram kemur í umfjöllun AFP að minna en einn þriðji þeirra sem hafi afplánað dóma Svíþjóð snúi aftur í fangelsi. Það eru helmingi færri en snúa aftur í fangelsi í Frakklandi, að því fullyrt er í umfjöllun AFP.

Kíkir í fjósið á frídögum sínum

Í öllum sænskum fangelsum hefur hver fangi sinn eigin klefa. Í Rodjan eru klefarnir ólæstir. Þar eru ekki öryggismyndavélar, lokuð hlið eða vírgirðingar og fangarnar ganga alveg lausir.

Í Rodjan afplána menn dóma fyrir ýmis brot, allt frá því að keyra án réttinda til skattalagabrota, en enginn þar er talinn hættulegur samfélaginu.

„Við teljum fangana á morgnana og svo aftur á kvöldin og við vitum alltaf hvar þeir eru,“ segir Johansson. „Ef þeir brjóta af sér hérna hjá okkur þá fara þeir í lokað fangelsi,“ bætir hún við.

Sjálfur gantast Alfreð með að kýrnar séu í raun meiri fangar en fangarnir sjálfir, enda eru þær læstar inni, ólíkt þeim.

Rodjan er stærsta fangelsi sinnar tegundar í Svíþjóð.
Rodjan er stærsta fangelsi sinnar tegundar í Svíþjóð. AFP

Fangarnir vinna á bænum 35 tíma á viku og fá tvo frídaga. Launin eru um 1.500 krónur á tímann. Alfreð viðurkennir að hann kíki nú reyndar alltaf í fjósið á frídögunum sínum, bara til að kanna hvort allt sé í lagi.

Michael Henningsohn, sem hefur umsjón með bænum, ber föngunum vel söguna. Hann dáist að viðmóti þeirra og metnaði og segir þá yfirleitt fljóta að læra handtökin. Það hlýtur að segja eitthvað að bærinn fékk sérstök verðlaun árið 2012 fyrir gæði mjólkur.

Þrátt fyrir að Alfreð njóti þess að eyða tíma með kúnum á bænum sér hann ekki fyrir sér að gerast bóndi eftir að afplánun lýkur, jafnvel þótt hann hafi alist upp í sveit þar sem afi hans og amma voru bændur. „Ég sá hvernig fór fyrir þeim, þetta er of mikil barátta,“ segir Alfreð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert