Moon heimsækir Norður-Kóreu í september

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, heilsuðust …
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, heilsuðust innilega er þeir áttu sinn annan fund í lok maí á þessu ári. AFP

Ráðamenn í Norður- og Suður-Kóreu samþykktu í dag að haldinn verði leiðtogafundur Kóreuríkjanna í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, í september. Suðurkóreska fréttastofan Yonhap greinir frá þessu, en embættismenn ríkjanna hafa undanfarið fundað á hlutlausa svæðinu svonefnda, sem skilur Kóreuríkin að.

Verði af fundinum er það í fyrsta skipti í meira en áratug sem forseti Suður-Kóreu heimsækir höfuðborg Norður-Kóreu.

Á sögulegum fundi Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, í vor samþykktu þeir að Moon heimsækti Pyongyang í haust og segir Yonhap heimsóknina verða í september.

Það voru ráðamenn í Norður-Kóreu sem lögðu í síðustu viku til að embættismenn ríkjanna funduðu, en Norður-Kórea hefur undanfarið gagnrýnt bandarísk stjórnvöld fyrir að halda til streitu refsiaðgerðum gegn ríkinu fyrir kjarnavopnaþróun, þrátt fyrir samkomulag sem náðist á leiðtogafundi Kim og Donald Trumps Bandaríkjaforseta í júní á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert