Segir af sér vegna símanotkunar erlendis

Per Sandberg hefur sagt af sér embætti ráðherra og varaformanns …
Per Sandberg hefur sagt af sér embætti ráðherra og varaformanns Framfaraflokksins í Noregi eftir umdeildar ferðar til Írans með unnustu sinni. Ljósmynd/Bård Gudim - Frpmedia

Per Sandberg, sjávarútvegsráðherra Noregs, hefur í dag sagt ráðherraembætti sínu lausu ásamt því að láta af störfum sem varaformaður Framfaraflokksins (no. Fremskrittspartiet). Flokksbróðir hans, Harald Tom Nesvik, hefur verið skipaður nýr sjávarútvegsráðherra segir í frétt norska ríkisútvarpsins NRK um málið.

Hneyksli varð vegna ferðar Sandbergs til Írans ásamt íransk-ættaðri unnustu hans, Bahareh Letnes. Meginþáttur málsins snýr að símanotkun ráðherrans sem er sögð hafa brotið öryggisreglur settar af öryggisdeild norsku lögreglunnar, PST, ásamt því að ráðherrum er skylt að upplýsa forsætisráðuneytið um fyrirhugaðar ferðir sínar til útlanda.

Sandberg upplýsti ekki forsætisráðuneytið um ferð sína til Írans og notaði hann vinnusíma ráðherra á ferðalagi sínu og innihélt síminn ýmsar trúnaðarupplýsingar meðal annars í formi smáskilaboða og tölvupósta. Sérstakar öryggisreglur eru um notkun snjallsíma ráðherra á ferðalögum og er hann talinn hafa brotið þær reglur.

Fyrrverandi eiginkona hans kvartaði

Sandberg hefur sagst hafa gild rök fyrir að upplýsa ekki forsætisráðuneytið, en rökstuðningur hans hefur byggt á að umrætt ferðalag var frí og á eigin vegum. Hann hefur hins vegar játað að það voru mistök að hafa tekið með sér vinnusímann og afhenti PST símann 1. ágúst.

Í máli ráðherrans hefur komið fram að hann telji sig hafa rökstuddar ástæður fyrir því að hafa ekki tilkynnt forsætisráðuneytinu um ferð sína, en hefur ekki viljað segja hverjar þær eru. NRK hefur eftir dóttur Sandbergs að hann hafi ekki viljað segja frá ferðinni þar sem hann hafi verið hræddur um að fyrrverandi eiginkona hans Line Miriam Sandberg myndi frétta af henni, en hún starfar sem aðstoðarráðherra í heilbrigðisráðuneytinu.

Þá hefur meðal annars verið gefið í skyn að Letnes hafi komið til Noregs fyrir tilstilli íranskra stjórnvalda, en hún hafði áður reynt að fá starf sem túlkur og/eða aðstoðarmaður Sandbergs. PST skoðar nú forsögu hennar.

Addresseavisen hefur sagt frá því að fyrrverandi eiginkona Sandbergs hafi þrátt fyrir leyndarhyggju hans komist að sambandi fyrrverandi eiginmanns og Letnes. Í kjölfarið hafi hún sent forsætisráðuneytinu erindi vegna sambandsins af öryggisástæðum.

Játaði annað brot á reglum

Í skriflegu svari í morgun vegna fyrirspurnar Terja Aasland þingmanns játaði Sandberg að hafa einnig brotið öryggisreglur þegar hann notaði vinnusíma sinn í ferð til Kína í fyrra.

Laust upp úr hádegi að norskum tíma var tilkynnt að nýr sjávarútvegsráðherra hefði verið skipaður á fundi með konungi og skömmu seinna barst fjölmiðlum tilkynning um að Sandberg hætti sem varaformaður Framfaraflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert