Sektaður fyrir að „múna“ í Majdanek

Drengurinn var ákærður fyrir að vanvirða minnismerki.
Drengurinn var ákærður fyrir að vanvirða minnismerki. Ljósmynd/Wikipedia.org

Pólska lögreglan sektaði nýverið ísraelskan unglingsdreng fyrir að hafa berað á sér afturendann, eða „múnað“ í Majdanek, þar sem nasistar starfræktu útrýmingarbúðir í seinni heimsstyrjöldinni. Atvikið náðist á upptöku öryggismyndavéla, en í búðunum er nú rekið safn. AFP-fréttastofan greinir frá.

Drengurinn, sem er 17 ára gamall, mun hafa gyrt niður um sig buxurnar og dillað rassinum í átt að einum skála búðanna. Hann var þar í skoðunarferð ásamt fleiri ferðamönnum frá Ísrael. Lögregla gerði drengnum grein fyrir því að hann yrði ákærður fyrir að vanvirða minnismerki. Honum yrði gert að greiða sekt eða sæta fangelsi.

Þar sem drengurinn játaði verknaði strax og sagðist reiðubúinn að taka afleiðingunum var ákveðið að hann skyldi greiða sekt. Hann afhenti lögreglu strax þann pening sem hann var með á sér, eða 230 evrur, en mun fá reikning fyrir afgangi sektarinnar.

Talið er að allt að 250 þúsund manns hafi látist í búðunum á árunum 1941 til 1944, þar af yfir 100 þúsund gyðingar. Á hverju ári heimsækja hundruð þúsund gesta safnið sem þar er nú starfrækt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert