Tugir slasaðir eftir tónlistarhátíð á Spáni

Atburðurinn átti sér stað á tveggja daga tónlistar- og útivistarhátíðinni …
Atburðurinn átti sér stað á tveggja daga tónlistar- og útivistarhátíðinni O Marisquiño sem haldin var um helgina í borginni Vigo á Vestur-Spáni. Kort/Google

Tugir slösuðust, þar af fjórir alvarlega, þegar trépallar hrundu á tónlistarhátíð á Spáni í gærkvöldi að því er BBC greinir frá. Fjöldi fólks hafði komið sér fyrir á pöllunum til að fylgjast með rapptónlistarmanninum Rel B, þegar þeir hrundu.

Atburðurinn átti sér stað á tveggja daga tónlistar- og útivistarhátíðinni O Marisquiño sem haldin var um helgina í borginni Vigo á Vestur-Spáni.

Segja spænskir fjölmiðlar um 130 manns hafa þurft aðhlynningar við bæði vegna meiðsla og áfallsins sem atburðurinn olli. Trépallarnir, sem voru um 30 metra langir og um 10 metra breiðir, voru að hluta til staðsettir yfir sjávarmáli og féllu sumir sem á þeim voru í sjóinn.

Sjónarvottar segja mikla hræðslu hafa gripið um sig hjá fólki sem hafi reynt að komast af pöllunum. Fjöldi sjúkrabíla var sendur á vettvang til að sinna hinum slösuðu og þá voru kafarar sendir niður til að tryggja að engir væru fastir undir pöllunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert