Yfir 300 slasaðir á tónlistarhátíð

Rannsókn er hafin á atvikinu.
Rannsókn er hafin á atvikinu. AFP

Talið er að yfir 300 manns hafi slasast, þar af fimm alvarlega, þegar trépallar hrundu á tónlistarhátíð í borginni Vigo á Vestur-Spáni í gærkvöldi. Lögregla hefur staðfest að enginn hafi látist, svo vitað sé. BBC greinir frá.

Trépall­arn­ir, sem voru um 30 metra lang­ir og um 10 metra breiðir, voru að hluta til staðsett­ir yfir sjáv­ar­máli og féllu sum­ir sem á þeim voru í sjó­inn.

Fjöldi fólks hafði komið sér fyr­ir á pöll­un­um til að fylgj­ast með rapp­tón­list­ar­mann­in­um Rel B, þegar þeir hrundu. Samkvæmt sjónarvottum hrundu pallarnir þegar tónlistarmaðurinn var á fyrsta lagi sínu. Þegar hann sá hvað var að gerast sagði hann áhorfendum að stökkva.

„Pallarnir féllu eins og lyftugólf. Þetta var aðeins sekúnduspursmál. Pallarnir brotnuðu og við féllum niður. Fólk féll á mig. Ég átti í vandræðum með að komast burt. Ég reyndi en rann alltaf til og fóturinn minn festist í sjónum. Það var strákur sem aðstoðaði mig og ég komst loksins burt. Mér fannst ég hálflömuð og það var alblóðug stelpa við hlið mér,“ sagði einn tónleikagesta eftir atvikið.

Yfir 300 manns slösuðust þegar pallarnir féllu eins og lyftugólf.
Yfir 300 manns slösuðust þegar pallarnir féllu eins og lyftugólf. AFP

Persónulegar eigur fólks eins og símar og töskur lágu eins og hráviði út um allt á vettvangi, þar sem bráðaliðar hlúðu að slösuðum. Þá voru kafarar notaðir til að ganga úr skugga um að enginn væri fastur undir yfirborði sjávar.

Abel Caballero, borgarstjóri Vigo, segir að atvikið verið rannsakað í þaula. Ekki liggur fyrir enn þá hvort pallarnir féllu vegna þess að of margir voru á þeim, eða hvort þeir voru of veikbyggðir. Þá gæti veður hafa spilað inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert