40 börn létust í árásinni á rútuna

Fjöldaútför fyrir mörg barnanna var haldin í gær og ber …
Fjöldaútför fyrir mörg barnanna var haldin í gær og ber jemenskur maður hér spjöld með myndum af tveimur barnanna. AFP

40 börn voru í hópi þess 51 sem lést þegar árás var gerð á rútu við markað í Norður-Jemen sl. fimmtudag. Hernaðarbanda­lag und­ir stjórn Sádi-Ar­aba hefur sætt harðri gagn­rýni vegna árás­ar­inn­ar, sem banda­lagið seg­ir þó hafa verið lög­mætt svar við mann­skæðri eld­flauga­árás upp­reisn­ar­manna í suður­hluta Sádi-Ar­ab­íu í gær.

Eldflaug hæfði rútu sem full var af börn­um, við Da­hy­an-markaðinn í borg­inni Saada, þekktu vígi upp­reisn­ar­manna úr röðum húta. Þá voru 56 börn meðal þeirra 79 sem særðust, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir alþjóðasamtökum Rauða krossins.

Fjöldaútför var haldin í gær fyrir mörg barnanna sem létust og lýstu margir við það tækifæri yfir reiði í garð stjórnvalda í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu. Héldu syrgjendur á lofti myndum af börnunum  og hrópuðu slagorð gegn Sádi-Arabíu og helsta bandamanni landsins, Bandaríkjunum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krafðist á föstudag „trúverðugrar“ rannsóknar á árásinni sem kostaði börnin í lífið. Það gekk þó ekki svo langt að krefjast óháðrar rannsóknar og hafa sérfræðingar og hjálparsamtök látið í ljós efasemdir um að staðið verði við loforð um gegnsæja rannsókn eða að þeir sem að árásinni stóðu verði látnir sæta ábyrgð.

Hernarðarbandalagið hefur ítrekað sætt gagnrýni fyrir að standa fyrir árásum á almenna borgara, m.a. á brúðkaup í strandbænum Mokha í september 2015 sem kostaði 131 lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert