Mannskæð brúarhrun frá aldamótum

Morandi-brúin í nágrenni borgarinnar Genúa á Ítalíu hrundi í morgun. …
Morandi-brúin í nágrenni borgarinnar Genúa á Ítalíu hrundi í morgun. Minnst þrjátíu létu lífið. AFP

Ítalska þjóðin er harmi slegin eftir að Morandi-brúin í nágrenni borgarinnar Genúa á Ítalíu hrundi með þeim afleiðingum að minnst þrjátíu létu lífið.

Samkvæmt samantekt AFP-fréttaveitunnar er þetta mesta manntjón sem hefur hlotist af völdum brúarhruns í Evrópu síðan 2001 en AFP tók saman mannskæðustu brúarhrun frá aldamótum.

2016: 26 létu lífið í Kolkata

Í mars árið 2016 hrundi brú yfir fjölfarna umferðargötu í borginni Kolkata á Indlandi með þeim afleiðingum að 26 létu lífið. Björgunarfólk bjargaði hundrað manns undan brúarrústunum.

2011: Skammt stórra högga á milli

Árið 2011 létu 32 hátíðargestir lífið skammt frá bænum Darjeeling þegar brú hrundi í norðausturhluta landsins. Aðeins viku síðar hrundi önnur brú í norðausturhluta landsins með þeim afleiðingum að 30 létu lífið.

2007: Nepal og Kína

Að minnsta kosti 64 verkamenn létust í vinnuslysi í Kína í ágúst 2007 þegar þeir unnu að brúarsmíði yfir fljót. Brúarsmíðin var mjög langt komin þegar slysið varð. Sama ár létu 16 lífið í Nepal eftir að brú hrundi í vesturhluta landsins. Mikill fjöldi pílagríma var á brúnni þegar hún hrundi en hundrað náðu að synda í land.

2006: Pakistan og Indland

Í ágúst 2006 létust 40 eftir að miklar rigningar skoluðu brú í Mardanm á brott í norðvesturhluta Pakistan. Í desember sama ár létust 34 á Indlandi þegar 150 ára brú hrundi á farþegalest á lestarstöð í Bihar-ríki.

2003: Indland og Bólivía

Tuttugu létu lífið, þar af 19 börn, þegar skólarúta og fjögur farartæki enduðu í á eftir að brú féll í nágrenni borgarinnar Mumbai á Indlandi. Sama ár létust 29 í Bólivíu þegar brú skolaðist til vegna mikilla flóða. 

2001: Mikið manntjón í Portúgal

Mikið manntjón varð í Portúgal í mars árið 2001 þegar aldagömul brú hrundi með þeim afleiðingum að rúta og þrír bílar féllu í Douro-ána skammt frá hafnarborginni Porto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert