Ók á öryggishindranir við breska þinghúsið

Fjöldi lögreglumanna er nú við þinghúsið. Ekki liggur fyrir hversu …
Fjöldi lögreglumanna er nú við þinghúsið. Ekki liggur fyrir hversu margir eru særðir. Skjáskot/Twitter

Nokkur fjöldi fólks slasaðist nú í morgun er bíll ók á öryggishindranir við breska þinghúsið í London.

Atburðurinn átti sér stað um hálfátta í morgun að staðartíma og er vopnuð lögregla, sjúkrabílar og slökkvilið komin á vettvang.

BBC greinir frá því að lögregla hafi umkringt bílinn og maðurinn sem í honum var hafi að því loknu verið handtekinn.

Búið er að loka götum í næsta nágrenni, sem og Westminister neðanjarðarlestarstöðinni.

Myndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum sem sýna mann í handjárnum vera leiddan á brott af lögreglu.

Ekki hefur verið gefið upp hversu margir slösuðust eða hve alvarlega, né heldur hvað manninum gekk til. Ekki liggur heldur fyrir hvort að um hryðjuverk sé að ræða, breska hryðjuverkalögreglan tekur þó þátt í rannsókninni. Þá kveðst lögregla ekki telja á þessari stundu að neinn sé lífshættulega slasaður, en a.m.k. einhverjir hinna slösuðu voru hjólandi er þeir urðu fyrir bílnum.

Í yfirlýsingu frá Scotland Yard segir að bíllinn hafi lent á öryggishindrunum við þinghúsið. „Ökumaðurinn, sem var karlmaður, var handtekinn af lögreglu á vettvangi. Nokkur fjöldi gangandi vegfarenda slasaðist. Lögregla verður áfram á staðnum og við veitum frekari upplýsingar er þær berast," segir í yfirlýsingunni.

Búkkar úr steinsteypu og stáli umkringja breska þinghúsið. Var þeim komið þar fyrir eftir að Khalid Masood ók bíl inn í mannfjölda við Westminister brúna í mars 2017 með þeim afleiðingum að fjórir létust. 

BBC hefur eftir sjónarvotti á vettvangi að svo virðist sem um viljaverk hafi verið að ræða. „Ég held að þetta hafi verið viljandi,“ segir Ewalina Ochab. „Bíllinn ók hratt í átt að hindrununum.“

Sjálf var hún á gangstéttinni hinu megin vegarins. „Ég heyrði hávaða og einhver öskraði. Ég sneri mér við og sá þá silfurlitan bíl aka mjög hratt, jafnvel á gangstéttinni, á rimlagrindverkið.“

Þá segir Ochab að svo virðist sem ekki hafi verið skráninganúmer framan á bílnum þegar hann ók á.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert