Sagður hafa látist við „trúarathöfn“

Siraj Ibn Wahhaj, faðir drengsins, var handtekinn í búðunum. Hann …
Siraj Ibn Wahhaj, faðir drengsins, var handtekinn í búðunum. Hann hefur verið ákærður fyrir barnsrán. AFP

Fjögurra ára drengur, sem fannst látinn í niðurníddum búðum, nokkurs konar greni, í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum í byrjun mánaðar, lést við „trúarathöfn“. Frá þessu hefur skrifstofa bandaríska ríkissaksóknarans greint, en lík drengsins fannst eftir að lögregla bjargaði 11 vannærðum börnum úr búðunum.

Fimm fullorðnir einstaklingar, tveir karlar og þrjár konur, dvöldu einnig í búðunum og voru handteknir og kærðir fyrir illa meðferð á börnunum. Þau hafa neitað ásökununum og voru látin laus gegn tryggingu, að því er BBC greinir frá.

Fullyrða lögfræðingar fimmmenninganna að þeir sæti óréttlátri meðferð hjá saksóknaraembættinu af því að þeir eru múslimar. Því hafnar saksóknari hins vegar alfarið.

Lögregla gerði húsleit í búðunum, sem eru í nágrenni Amalia, 6. ágúst en lögregla var þá að leita að þriggja ára dreng, Abdul-Ghani Wahhaj. Hann var ekki meðal barnanna 11 sem var bjargað úr búðunum, en síðar fann lögregla líkamsleifar ungs drengs á staðnum.

Faðir Abdul-Ghani, Siraj Wahhaj er grunaður um að hafa rænt drengnum af heimili móður hans í Georgíu í desember á síðasta ári.

Wahhaj var handtekinn á staðnum ásamt þeim Lucas Morten, Jany Leveille, Hujhrah Wahhaj og Subhannah Wahhaj. Fullyrðir saksóknari að fimmmenningarnir séu hættulegir og hafi ekki átt að fá lausn gegn tryggingagjaldi. Þeir hafi þjálfað börnin í að nota vopn og til að standa að skotárásum á skóla.

Lkamsleifarnar sem fundust hafi enn fremur verið af Abdul-Ghani, en hin börnin segja drenginn hafa látist við „trúarathöfn [...] sem var ætluð til að losa hann við illa anda“. Á faðir hans að hafa lagt hönd á enni sonar síns og farið með vers úr kóraninum við þetta tækifæri.

Abdul-Ghani var flogaveikur og með þroskahömlun, en Wahhaj taldi drenginn vera andsetinn og að hann þyrfti andasæringar við, að því er fram kemur í dómsskjölum.

Sagði bandarískur alríkislögreglumaður réttinum að eftir að Abdul-Ghani lést hafi hinum börnunum verið sagt að hann myndu snúa aftur „sem Jesús“ og segja þeim hvar þau ættu að framkvæma árásir sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert