Banna „forsíðu netsins“ í Kína

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa lokað á samskiptamiðilinn Reddit í landinu. Reddit, sem ber undirtitilinn Forsíða netsins (e. front page of the internet), er einn fjölsóttasti samfélagsmiðill heims. Virkir notendur eru um 330 milljónir, álíka margir og nota Twitter.

Reddit bætist nú á langan lista vefsíðna sem lokaðar eru kínverskum almenningi en meðal þeirra eru Facebook, Instagram, Netflix, Youtube og New York Times, auk þess sem aðgangur að Wikipediu og BBC er takmarkaður.

Reddit er um margt ólíkur öðrum samfélagsmiðlum að því leyti að notendur eru ekki miðpunktur þess efnis sem boðið er upp á. Þess í stað samanstendur miðillinn af mörgum spjallsvæðum, sem er hvert um sig tileinkað ákveðnu málefni. Þannig finna áhugamenn um sögu sitt svæði, stuðningmenn Donalds Trumps sömuleiðis og meira að segja áhugamenn um brauð heftað við tré, finna athvarf á Reddit.

Undirtitillinn, forsíða internetsins, kemur til vegna þess mikla magns frétta, greina, mynda og efnis hvaðanæva af netinu sem notendur Reddit deila á viðeigandi svæði síðunnar. Í ljósi fyrri aðfara að upplýsingafrelsi ætti ákvörðunin því ekki að koma á óvart.

Bangsímon bannaður

Það eru ekki bara samfélagsmiðlar sem líða fyrir kverkatök kínverskra stjórnvalda á upplýsingastreymi til almennings. Meðal fórnarlamba er einnig hinn geðþekki Bangsímon og félagar hans, Tumi tígur, Eyrnaslapi og Gríslingur. 

Forsaga málsins er sú að árið 2013 heimsótti Xi Jinping, forseti Kína, Barack Obama Bandaríkjaforseta og höfðu netverjar orð á því að holdafar þess fyrrnefnda minnti á Bangsímon. 

Líkindi forsetans og bangsans urðu að „meme-i“ (minni) í Kína og hvert tækifæri nýtt til að bera myndir af Xi saman við myndir af Bangsímon í sömu stellingum. Kínversk stjórnvöld lýstu myndinni sem „alvarlegri tilraun til að grafa undan virðingu forsetaembættisins og Xi sjálfs“. Bangsímon varð nokkurs konar uppnefni forsetans og varð það til þess að orðinu Bangsímon var bætt á lista yfir þau orð sem ekki má nota á samfélagsmiðlum eða leitarvélum í Kína.

Af þeim sökum fær nýjasta kvikmynd Disney, Christopher Robin, ekki sýningarleyfi í Kína en myndin segir frá hinum miðaldra Cristopher Robin sem hittir æskuvin sinn Bangsímon og endurheimtir við það lífsgleðina sem hann hafði glatað.

Bangsímon er útlægur í Kína.
Bangsímon er útlægur í Kína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert