Brúin lengi verið vafasöm

Morandi brúin.
Morandi brúin. AFP

Ástand Morandi brúarinnar og hrun brúargólfsins í gærmorgun hefur varpað nýju ljósi á margra ára umræðu um innviði á Ítalíu. Á fimm árum hafa fimm brýr á Ítalíu brugðist og voru hörmungarnar í gær þær mannskæðustu af sinni gerð frá árinu 2001.

Ástand Morandi hefur, eftir því sem fram kemur á BBC, verið til umræðu áður á Ítalíu og þá sér í lagi hversu lengi hún myndi endast í núverandi ásigkomulagi.

Árið 2012 ræddi borgarráð Genóa um brúnna og sagði talsmaður iðnaðarbandalags á svæðinu að brúin myndi hrynja „innan tíu ára.“ Fjórum árum síðar sagði burðarþolsfræðingurinn Antonio Brencich svo að ákveðnir brestir væru í brúnni.

AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, hefur tilkynnt að innviðir á borð við brýr og vegi um alla Ítalíu verði skoðaðar í kjölfar slyssins.

Enn hefur ekki komið í ljós hvað gerðist nákvæmlega þegar brúin brast. Það hafði verið ofsafenginn rigning í gærmorgun og samkvæmt BBC er verið að rannsaka hvort að eldingar hafi haft einhver áhrif. Samkvæmt talsmanni Autostrade, umsjónaraðila brúarinnar, var verið að vinna að því að styrkja grunn hennar.

Autostrade viðurkenndi það árið 2011 að ástand brúarinnar væri ábótavant sökum umferðar.

Gætu þurft að borga hátt í 20 milljarða króna

Samkvæmt fréttavef Reuters  hafði íbúi Genóa sem starfaði við brúnna lengi verið var við að brúin væri ekki í ákjósanlegu ástandi og að löngum hefði mátt sjá ryð undir brúargólfinu. Byggingu brúarinnar lauk árið 1967 og var hún yfirfarin fyrir tveimur árum.

Morandi brúin.
Morandi brúin. AFP

Sam­göngu­málaráðherra Ítal­íu, Dani­lo Ton­inelli, hef­ur sagt að um­sjón og viðhald Autostra­de á brúnni hafi verið ófull­nægj­andi og hef­ur kallað eft­ir því að for­svars­menn fyr­ir­tæk­is­ins segi af sér.

Þá hef­ur Ton­inelli einnig sagt að hann hafi þegar hafist handa við að svipta fyrirtækið starfsleyfi sínu og að það gæti átt von á sektum upp á allt að 150 milljónir evra eða því sem nemur um 18 og hálfum milljarði króna. Tals­menn Autostrade hafa sagt að brú­in hafi verið skoðuð árs­fjórðungs­lega eins og lög í land­inu kveða á um.

Eft­ir því sem fram kem­ur á vef BBC er tala lát­inna kom­in upp í 39 manns. Þar af hef­ur verið borið kennsl á 37 fórna­lömb og að minnsta kosti þrjú börn eru lát­in. Ólíklegt er að fleiri eftirlifendur finnist.

Samkvæmt utanríkisráðuneyti Frakklands voru þrír Frakkar á meðal látinna, en brúin er mikilvæg lífæð á milli Ítalíu og Suður-Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert