Fundu um 6 þúsund bréf á pósthúsinu

Mynd úr safni af pósti.
Mynd úr safni af pósti. AFP

Indverskur póstburðarmaður hefur verið rekinn úr starfi eftir að í ljós kom að hann hafði ekki komið þúsundum bréfa til skila undanfarinn áratug.

Samkvæmt frétt BBC er þar komin skýringin á því hvers vegna íbúar í bænum Odhanga í Orissa-ríki hafi ekki fengið bréf sem þeir áttu von á. Til að mynda svör við starfsumsóknum eða umsóknum um greiðslukort. Bréfin hafa væntanlega endað á borði póstburðarmannsins.

Þegar hópur skólabarna var að leika sér í bakgarði pósthúss sem ekki er lengur í notkun sáu þau stafla af bréfum og bögglum inn um glugga þess en pósthúsið var nýverið tekið úr notkun og flutt á nýjan stað.

Í frétt Hindustan Times kemur fram að talið sé að um sex þúsund bréf og pakkar séu á pósthúsinu og þau elstu séu síðan árið 2004. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert