Fyrsta aftakan með fentanyl

Carey Dean Moore sat 38 ár á dauðadeild fyrir tvö ...
Carey Dean Moore sat 38 ár á dauðadeild fyrir tvö morð sem hann framdi um tvítugt. AFP

Nebraska varð í gær fyrsta bandaríska ríkið til þess að nota ópíóíðalyfið fentanyl við aftöku á fanga. Lyfið hefur helst ratað í fréttir fjölmiðla vegna banvænnar misnotkunar á því í Bandaríkjunum og víðar. 

Við aftökuna á Carey Dean Moore í gær var fentanyl eitt þeirra fjögurra lyfja sem notað var við aftökuna en lyfjablandan hafði aldrei verið reynd áður til notkunar í þessum tilgangi.

Carey Dean Moore, sem var sextugur að aldri þegar hann lést, var dæmdur til dauða fyrir morð á tveimur manneskjum árið 1979. Hann er sá fyrsti sem er tekinn af lífi í Nebraska í 21 ár og aldrei áður hefur ríkið notað lyfjablöndu við aftöku.

Moore var úrskurðaður látinn klukkan klukkan 10:47 að staðartíma, klukkan 15:47 að íslenskum tíma. Aftakan tók um tuttugu mínútur að sögn Scott Frakes, fangelsismálastjóra Nebraska. 

Allt fram á síðustu stundu reyndi lyfjafyrirtækið og mótmælendur að koma í veg fyrir aftökuna án árangurs.

Fentanyl er eitt þeirra lyfja sem er misnotað. Um er ...
Fentanyl er eitt þeirra lyfja sem er misnotað. Um er að ræða ópíóða. mbl.is/Valgarður Gíslason

Nebraska felldi úr gildi dauðarefsingar árið 2015 en ári síðar samþykktu íbúar ríkisins í allsherjaratkvæðagreiðslu að heimila þær að nýju. Síðasta aftakan í Nebraska fór fram árið 1997 og var þá rafmagnsstóllinn notaður til að drepa fangann.

Frakes segir að hann viti að aftakan hafi áhrif á fólk en að fagmennsku hafi verið beitt og virðing borin fyrir öllum þeim sem áttu hlut að máli. 

Eina lyfið sem áður hafði verið notað við aftöku var lyfið sem stöðvar hjartað. 

Robert Dunham, framkvæmdastjóri upplýsingamiðstöðvar um dauðarefsingar (Death Penalty Information Center), segir að ríki eigi í vandræðum við að útvega lyf sem hægt sé að nota við aftökur og lyfjaframleiðendur og seljendur hafi ítrekað neitað að selja lyf til slíkra nota. 

Dunham segir að það sé vafasamt af Nebraska að nota fentanyl við aftökur vegna hertra reglna varðandi notkun lyfsins og að ríkið hafi ekki upplýst um hvaðan lyfið sem notað var við aftökuna kemur.

Í síðustu viku reyndi þýska lyfjafyrirtækið Fresenius Kabi að koma í veg fyrir notkun ríkisins á tveimur lyfjum. Taldi lyfjafyrirtækið að lyfin sem Nebraska ætlaði að nota kæmu frá lyfjafyrirtækkinu án þess að lyfjafyrirtækið hefði verið upplýst. Krafðist fyrirtækið þess að yfirvöld í Nebraska upplýstu um hvaðan lyfin kæmu en því var hafnað bæði af alríkisdómara og áfrýjunardómstól. Jafnvel páfanum tókst ekki að koma í veg fyrir örlög Moore. En fyrir tveimur vikum breytti Frans páfi skilgreiningu kaþólsku kirkjunnar og lýsti því yfir að samkvæmt skilgreiningu kirkjunnar væru dauðarefsingar alltaf óleyfilegar. 

Þrátt fyrir þetta sagði ríkisstjóri Nebraska, Pete Ricketts, sem er kaþólskur, að hann virti skoðanir páfans en þetta væri vilji fólksins. Að viðhalda dauðarefsingum. Nokkrir mótmælendur stóðu fyrir utan fangelsið þegar aftakan fór fram og meðal þess sem stóð á mótmælaspjöldum fólks fyrr um daginn í höfuðstað Nebraska, Lincoln, var: „Ricketts myndi drepa Jesúm“.

Moore hafði verið á dauðadeild í 38 ár og vildi ekki að aftökunni yrði frestað lengur. Hann játaði að hafa skotið tvo leigubílstjóra til bana í Omaha. Fyrri bílstjórann skaut hann til bana við rán sem hann framdi ásamt bróður sínum og seinni bílstjórann drap hann fimm dögum síðar en þá vildi hann sanna það fyrir sjálfum sér að hann væri fullfær um að fremja morð.

Í skriflegri yfirlýsingu fyrr í mánuðinum sagði Moore að hann væri sekur en ekki þeir sem hann myrti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina