Íbúar ósáttir við kjarnorkudrenginn

Sólardrengurinn í hlífðargallanum á að standa keikur gegn erfiðleikum. Íbúar …
Sólardrengurinn í hlífðargallanum á að standa keikur gegn erfiðleikum. Íbúar í Fukushima telja hann hins vegar gefa í skyn að geislavirkni gæti í borginni. AFP

Íbúar japönsku borgarinnar Fukushima eru ósáttir við styttu af dreng í hlífðargalla og segja hana gefa í skyn að borgin sé enn menguð eftir kjarnorkuslys sem þar varð árið 2011.

Kjarnorkuver Fukushima varð fyrir flóðbylgju árið 2011 sem olli alvarlegasta kjarnorkuslysi sem orðið hefur frá kjarnorkuslysinu í Chernobyl á níunda áratug síðustu aldar.

Styttan var reist á stall sinn í þessum mánuði og segir listamaðurinn að hún snúist um von um heim án kjarnorkuhörmunga. Hefur listamaðurinn Kenji Yanobe nú beðið íbúa afsökunar á að valda þeim óþægindum, að því er BBC greinir frá.

Japanska Kyodo-fréttastofan segir reiða íbúa hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum. Þeir hafi haft samband við borgaryfirvöld og krafist þess að styttan verði fjarlægð þar sem að hún skaði orðspor Fukushima.

Styttan nefnist Sólarbarnið og er staðsett við lestarstöð borgarinnar. Hún sýnir dreng í gulum hlífðargalla með hjálm í annarri hendi og tákn sólarinnar í hinni. Mælir á brjósti hans sýnir þá töluna „000“ sem tákn um að geislavirkni sé engin.

„Ég vildi búa til verk sem hvetur fólk [...] og gerði styttu af barni sem sýnir hugrekki og styrk gegn erfiðleikunum sem það stendur frammi fyrir,“ sagði Yanobe.

Þrír af kjarnaofnum Fukushima-kjarnorkuversins biluðu eftir að flóðbylgja olli skemmdum á verinu, sem er um 100 km suðaustur af borginni.

Rúmlega 200.000 manns neyddust til að yfirgefa heimili sín vegna hættunnar á mengun sem fylgdi í kjölfarið. Þá fórust rúmlega 18.500 manns í jarðskjálftanum sem olli flóðbylgjunni og hafa sumir þeirra enn ekki fundist.

Hlutar kjarnorkuversins eru enn mengaðir, en stærsti hluti svæðisins hefur þó verið lýstur öruggur og eru yfirvöld nú með herferð í gangi um „endurvakningu“ Fukushima, sem ætlað er að veita upplýsingar og gagnsæi við hreinsunarferlið.

Einungis fáir hafa þó kosið að snúa aftur á þau íbúasvæði í nágrenninu sem rýmd voru, þrátt fyrir að langt sé síðan þau voru sögð örugg til búsetu.

Borgarstjóri Fukushima hefur varið á Twitter þá ákvörðun að setja upp styttuna og segir henni hafa verið vel tekið á listasýningum í Japan og víðar um heim. Hvatti hann til skilnings og sagði að ólíkt vísindum þá væri nútímalist abstrakt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert