Ökumaðurinn frá Birmingham

Lögreglan lokaði svæðinu í kringum Westminster í gær.
Lögreglan lokaði svæðinu í kringum Westminster í gær. AFP

Maðurinn sem var handtekinn fyrir að ekið á öryggishindranir við breska þinghúsið í London í gærmorgun er breskur en af súdönskum uppruna.

Þrír slösuðust þegar silfurlitaðri Ford Fiesta var ekið inn í hóp hjólreiðamanna áður en bíllinn lenti á öryggishindrununum.

Maðurinn er búsettur í borginni Birmingham, heitir Salih Khater og er 29 ára.

Rannsókn stendur yfir á því hvort um hryðjuverk hafi verið að ræða. Yfirmaður hryðjuverkadeildar lögreglunnar, Neil Basu, sagði að Khater hefði ekki verið kunnur á meðal leyniþjónustunnar en blaðið The Times greindi frá því að lögreglan hafi vitað hver hann væri.

Blaðið sagði að Khater væri verslunarstjóri í Birmingham og hefði stundað nám við vísinda- og tækniháskólann í Súdan. Þær upplýsingar fundust á Facebook-síðu hans.

„Hann er ekki hryðjuverkamaður. Ég hef þekkt hann síðan í barnæsku. Hann er góður maður,“ sagði Abubakr Ibrahim, æskuvinur hans.

Eftir að Khater var handtekinn hefur húsleit staðið yfir á tveimur stöðum í Birmingham og á einum stað í Notthingham.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert