Ört sökkvandi borg

„Ofurborgin“ Djakarta er höfuðborg Indónesíu. Þar búa um 9,6 milljónir ...
„Ofurborgin“ Djakarta er höfuðborg Indónesíu. Þar búa um 9,6 milljónir manna. AFP

Djakarta, höfuðborg Indónesíu, er á hraðri leið með að hverfa í kaf ef ekkert verður að gert að sögn sérfræðinga. Landfræðileg staðsetning borgarinnar, mannanna verk og aðgerðarleysi stjórnvalda eru raunveruleg vandamál í borginni sem valda áhyggjum samkvæmt ítarlegri frétt BBC um málið. 

Sérfræðingur segir einu von borgarinnar að yfirvöld bæti úr vatnsveitumálum þar sem vandinn liggi í því að íbúar dæli ótæpilegu magni grunnvatns úr jarðlögum undir borginni sem veldur jarðsigi. 

Borgin að hverfa í jörð

„Ofurborgin“ Djakarta er gömul hafnarborg og þar búa um 9,6 milljónir manna. Vatnsyfirborð í borginni hækkar hratt og ef ekkert verður að gert mun 95% borgarinnar hverfa á kaf fyrir árið 2050 að sögn sérfræðinga. 

Borgin, þar sem er að finna marga gríðarstóra skýjakljúfa, er víða byggð á miklu votlendi og 13 ár renna í gegn um borgina. Það ætti því ekki að koma á óvart að flóð eru tíð í Djakarta, og ástandið versnar að sögn sérfræðinga þar sem borgin er nú að hverfa í jörð. 

Djakarta hefur sokkið um 2,5 metra á síðastliðnum 10 árum og mun halda áfram að sökkva um 25 cm á ári á sumum svæðum, sem er meira en tvöfalt yfir meðaltali stórborga sem liggja við strendur. 

Frá flóði í Djakarta árið 2014. Flóð eru tíð í ...
Frá flóði í Djakarta árið 2014. Flóð eru tíð í borginni. AFP

Hlýnun jarðar ein orsakanna

Þar sem vatnsyfirborð hefur risið hvað mest í Djakarta er jafnvel algengt að fyrstu hæðir húsa í séu undir vatnsyfirborði. Húseigendur kjósa margir að lifa með ástandinu og framkvæma skammtímalausnir. En það sem reynist þeim ómögulegt er að hindra það að jarðvegurinn sökkvi stórum hluta borgarinnar. Víða má sjá skurði sem byggðir hafa verið fyrir utan hús til þess að hindra að vatnið flæði inn þegar rignir. 

Strandborgir um allan heim glíma við þann vanda sem blasir við vegna hlýnunar jarðar þar sem yfirborð sjávar hækkar stöðugt. En ástandið þykir öfgakennt í Jakarta.

Dæla upp vatni úr jörð svo jarðvegur sígur

Ein orsök þess slæma ástands sem þar ríkir er að vatnsleiðslur eru ekki traustar eða aðgengilegar í flestum hverfum svo að fólk neyðist til þess að dæla vatni úr vatnsæðum neðanjarðar sjálft. Þegar jarðvatni er dælt upp sekkur jarðvegurinn líkt og hann sitji á vindlausri blöðru. Þetta leiðir því til landsigs.

Almenningur í Djakarta segist ekki hafa um neitt að velja á meðan yfirvöld mæta ekki vatnsþörf íbúanna, en yfirvöld útvega aðeins um 40% af því vatni sem íbúarnir þarfnast.

Ekki er langt síðan yfirvöld viðurkenndu þennan vanda, en erfitt getur reynst fyrir yfirvöld að koma í veg fyrir að íbúar dæli vatni upp sjálfir nú þegar svo margir hafa þegar byrjað á þeirri aðferð. 

Yfirvöld vonast þá til þess að 32 km langur úthafsmúr sem er í bígerð muni hjálpa til við að bjarga hinni sökkvandi borg auk þess að koma fyrir gervieyjum og lónum í kring um borgina. 

Aðeins ein lausn 

Jan Jaap Brinkman, vatnafræðingur hjá hollensku vatnarannsóknarstofnuninni Deltares segir þó að þau áform muni duga skammt.

„Það er aðeins ein lausn og allir vita hver hún er. Það er að stöðva alla dælingu vatns úr  jörðinni og treysta aðeins á aðra uppsprettu vatns, svo sem rigningarvatn, vatn úr ám eða leiðsluvatn úr manngerðum uppistöðulónum,“ segir Brinkman. 

mbl.is