Safnaði líkamsvessum fórnarlamba

AFP

Skýrslan sem nafngreinir yfir 300 núverandi og fyrrverandi presta kaþólsku kirkjunnar í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum grunaða um kynferðisbrot, telur yfir níu hundruð blaðsíður og eiga meint brot að hafa verið framin á sjö áratugum. Í skýrslunni er að finna lýsingar á brotum gegn yfir þúsund börnum.

Varað er við lýsingum í fréttinni.

Skýrslan er gerð af ákærurétti í Pennsylvaníu og ákvað hann að gera skýrsluna aðgengilega almenningi. Þrátt fyrir að réttinum sé heimilt að nafngreina einstaklinga sem enn ekki hafa hlotið dóm, kærði fjöldi presta birtinguna til Hæstaréttar Pennsylvaníu til þess að koma í veg fyrir að nöfn þeirra yrðu birt, að því er segir í umfjöllun Philadelphia Inquirer.

Hæstiréttur Pennsylvaníu úrskurðaði í málinu í síðasta mánuði og í úrskurðinum fólst að nöfn prestanna yrðu ekki gerð opinber samhliða skýrslunni, sem var birt í gær.

Prestur sagði dreng hafa tælt sig

Í skýrslunni segir frá presti í Harrisburg-sókn sem á að hafa brotið kynferðislega gegn fimm systrum yfir lengri tíma þrátt fyrir að tilkynningar hafi borist vegna málsins. Fyrir utan kynlífsathafnir á presturinn að hafa safnað sýnum af stelpunum, svo sem þvagi, skapahárum og tíðablóði. Við húsleit á heimili prestsins fannst „safnið.“ Biskupsstofa vildi hins vegar ekki styðja málstað barnanna vegna þess að ekki væri fyrirliggjandi játning prestsins sem gerði málið að „orð gegn orði.“

Í Pittsburg-sókn ákváðu stjórnendur kaþólsku kirkjunnar að vísa frá máli á grundvelli þess að 15 ára einstaklingurinn sem brotið var gegn hafði, að mati kirkjunnar, leitað prest uppi og „tælt“ hann. Þegar presturinn var ákærður og dreginn fyrir dómara sendi kirkjan dómstólnum erindi þar sem kom fram að presturinn vissulega játaði að hafa stundað BDSM-kynlíf með fleiri drengjum, en að þetta væri bara „milt“ BDSM og að presturinn væri ekki „geðsjúkur.“

Prestur sem barnaði sautján ára stúlku í Greensburg-sókn falsaði undirritun hjúskaparvottorðs og skildi síðan við stúlkuna nokkrum mánuðum síðar. Þrátt fyrir að hafa átt samræði við unga stúlku undir lögaldri, eignast með henni barn, gifst henni og síðan skilið við hana, var prestinum heimilað að starfa áfram þar sem „umhyggjusamur“ biskup í annarri sókn gat veitt honum starf.

Philadelphia Inquirer hefur fjallað ítarlega um málið.
Philadelphia Inquirer hefur fjallað ítarlega um málið. Skjáskot

Mörg fórnarlamba gengið með skömm í áratugi

Meðlimir ákæruréttarins leggja til miklar umbætur í réttarkerfinu til þess að mæta þörfum fórnarlamba kynferðisofbeldis sem þau verða fyrir á barnsaldri. Til þess að undirstrika þörfina hefur ákærurétturinn ákveðið að segja sögur nokkurra fórnarlamba í skýrslu sinni.

Saga Julianne er sögð í skýrslunni. Henni var kennt frá ungum aldri að prestar væru æðri menn, jafnvel æðri foreldrum hennar þar sem þeir væru fulltrúar Guðs. Þessir boðberar Krists brutu gegn henni þegar hún var fjórtán ára. „Hverjum gat hún sagt frá?“ spyr rétturinn. Julianne er tæplega 70 ára í dag.

Rétturinn segir fórnarlömb hafa beðið lengi eftir því að segja sögu sína og vísa til Joe frá Scranton. „Á þessum tíma [sem brotið var gegn honum] gat hann ekki fundið neinn sem vildi heyra um allsbera prestinn sem snerti sjálfan sig og sagði honum að fara úr fötunum og í rúmið. Það tók 55 ár fyrir hann að finna okkur,“ segir í skýrslunni.

Einnig er sagt frá Bob frá Reading. Hann segist enn ekki geta snert annan karlmann, ekki einu sinni heilsað með handabandi eða tekið utan um syni sína. Bob segist ekki hafa sagt neitt því hann hélt hann væri sá eini, en segist nú reiðubúinn til þess að ákæra prestinn sem braut gegn honum sé það hægt. Bob er nú 83 ára.

mbl.is