Segist geta læknað samkynhneigð

Frá borginni Genf í Sviss.
Frá borginni Genf í Sviss. Ljósmynd/Wikipedia

Yfirvöld í Genf í Sviss hafa hafið rannsókn á frönskum lækni sem segist geta læknað samkynhneigð með óhefðbundnum aðferðum.

Maðurinn starfar á hefðbundinni læknastofu í Genf en rekur aðra stofu í nágrannafylkinu Vaud þar sem hann býður upp á ýmiss konar meðferð við samkynhneigð, bæði fyrir stráka og stelpur.

Mauro Poggia, heilbrigðisráðherra í fylkinu Genf, hefur óskað eftir því að rannsókn fari fram á störfum dr. Jean-Yves Henry.

„Svo virðist sem hann telji að samkynhneigð sé sjúkdómur sem hægt sé að lækna. Bara það nægir til að hefja rannsókn,“ sagði Poggia við Le Courrier.

Ákvörðunin var tekin eftir að ummæli tóku að birtast á samfélagsmiðlum um lækninn ásamt grein eftir hann frá árinu 2009 um samkynhneigð og hvernig hægt sé að lækna hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert