Stytta frá 12. öld fannst eftir 57 ár

Styttan sem um ræðir.
Styttan sem um ræðir. AFP

Búddastytta frá 12. öld sem stolið var af safni á Indlandi fyrir 57 árum er nú komin í leitirnar í London, og verður á næstu dögum flutt aftur til Indlands. Um er að ræða bronsstyttu greypta með silfri, sem stolið var af forngripasafni í Nalanda í austurhluta Indlands árið 1961. AFP-fréttastofan greinir frá.

Styttan vakti athygli á vörusýningu í Bretlandi á mars á þessu ári og lista- og antíkmunadeild lögreglunnar í London ákvað að hefja rannsókn á uppruna hennar. Eiganda styttunnar var gert viðvart en hann er þó ekki grunaður um neitt saknæmt. Hann samþykkti að styttunni yrði skilað í hendur réttra eigenda. Styttunni var svo komið í hendur indverskra yfirvalda við hátíðlega athöfn í London í morgun.

„Þetta undirstrikar vel hvernig lögregla og listamarkaðurinn í London geta unnið saman að því að sýna menningarlega háttvísi öðrum til fyrirmyndar,“ sagði Michael Ellis, ráðherra lista, við athöfnina í morgun. Þá var athugulum viðskiptavini á vörusýningunni þakkað sérstaklega fyrir árvekni og fyrir að hafa látið lögregluna vita af styttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert