700 milljónir til höfuðs eiturlyfjabaróni

AFP

Mexíkósk stjórnvöld hafa boðið 30 milljónir pesóa, jafnvirði 170 milljóna króna, þeim sem gefur upplýsingar sem geta leitt til handtöku eiturlyfjabarónsins Nemesio Oseguera hvers gengi er sakað um að standa að heróínsendingum til Bandaríkjanna. Fréttaveitan Reuters hefur þetta eftir saksóknara í landinu.

Bandarísk stjórnvöld bæta um betur og bjóða fimm milljónir dala, um 535 milljónir króna, fyrir sams konar upplýsingar um Oseguera sem er þekktur undir gælunafninu El Mencho. Hann er sagður eftirsóttasti glæpamaður Mexíkó eftir að kollegi hans, Joaquin Guzman, El Chapo, var handsamaður og framseldur til Bandaríkjanna í fyrra.

El Chapo og El Mencho hafa stýrt tveimur stærstu gengjum Mexíkó síðustu ár og eldað grátt silfur. Árið 2016 rændu félagar El Mencho til að mynda tveimur sonum El Chapo, Ivan sem er 35 ára og Jesus Alfredo Guzman, 29 ára, á veitingastað í Puerto Vallarta í Mexíkó. Þeim var síðan sleppt lausum eftir að Chapo borgaði lausnargjald upp á tvær milljónir dollara, um 214 milljónir króna.

AFP

Talið er að El Chapo sé í felum í fjalllendi í Jalisco eða Michocán, norðvestur af Mexíkóborg. Yfirvöld í Chicago í Bandaríkjunum hafa lýst honum sem „almenningsóvini númer eitt“ (e. public enemy number one) og kennt gengi hans um „yfirgengilegt ofbeldi“ í borginni sem sé fylgifiskur valdabaráttu þess innan fíkniefnaheimsins.

Gengi hans, Jalisco Nueva Generacion (Nýja kynslóð Jalisco), er af stjórnvöldum talið valdamesta eiturlyfjagengi Mexíkó með starfsemi víða um heim, frá Rómönsku-Ameríku til Bandaríkjanna, Evrópu, Afríku og Asíu.

Það hefur meðal annars fjárfest í kafbátum sem eru notaðir til að flytja eiturlyf frá framleiðslustöðvum í Suður-Ameríku um heimshöfin og er gengið þekkt fyrir stórtæka framleiðslu metamfetamíns, heróíns og kókaíns, að því er fram kemur á vefsíðu innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna.

Kona El Chapo var handtekin í maí fyrir peningaþvætti sem talið er tengjast eiturlyfjagenginu.

El Chapo í haldi bandarískra stjórnvalda í janúar í fyrra.
El Chapo í haldi bandarískra stjórnvalda í janúar í fyrra. Ljósmynd/Útlendinga- og tollgæsla Bandaríkjanna (ICE)
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert