Roundup mælanlegt í vinsælu morgunkorni

Brúsar af Roundup sjást hér til sölu í verslun í …
Brúsar af Roundup sjást hér til sölu í verslun í San Rafael í Kaliforníu. Umtalsvert magn glýfosats, virka efnisins í Roundup, finnst í fjölda matvara. AFP

Plöntueyðirinn Roundup hefur mælst í 43 matvælategundum, m.a. múslíi, Cheerios og svonefndum heilsustykkjum (e. snack bars). Þetta kemur fram í frétt sem birt er á vef Guardian í dag. Monsanto, framleiðandi Roundup, var í síðustu viku dæmt til að greiða garðyrkjumanni 289 millj­ón­ir dala í skaðabætur vegna notk­un­ar hans á Roundup, en maðurinn hélt því fram að hann hefði fengið krabba­mein eft­ir notkun á plöntueyðinum sem inni­held­ur efnið glý­fosat.

Guardian segir umtalsvert magn glýfosats hafa fundist í fjölda vinsælla tegunda af morgunkorni, höfrum og heilsustykkjum sem eru markaðssett með bandarísk börn í huga.

Rannsóknir sem lýðheilsusamtökin Environmental Working Group (EWG) létu gera sýndu að glýfosat var greinanlegt í öllum nema tveimur af 45 vörum sem rannsakaðar voru, sem unnar voru úr höfrum.

Magn glýfosats mest hjá stærstu framleiðendunum

Þar af mældist magn glýfosats í þremur af hverjum fjórum vörum umfram það magn sem EWG telur óhætt fyrir börn að neyta. Þær vörur sem reyndust vera með mestu magni glýfosats voru frá leiðandi fyrirtækjum í framleiðslu á morgunkorni, m.a. frá Kellogg‘s, General Mills sem framleiðir Cheerios og fyrirtækinu Quaker.

Guardian segir að þannig hafi til að mynda greinst 1.000 hlutar glýfosats á hvern milljarð í stikkprufu sem var gerð á Quaker Old Fashioned Oats. Bandaríska umhverfisstofnunin (EPA) telur skaðlaust magn glýfosats í korni, sojabaunum, maísbaunum og nokkrum tegundum ávaxta vera á bilinu 0,1-310 hlutar á hverja milljón.

Hafa sum­ir vís­inda­menn sagt glý­fosat lík­legt til að valda krabba­meini á meðan aðrar rann­sókn­ir draga þær niður­stöður í efa.

Hafraakur í Dakota. Bandarískir bændur úða rúmlega 90 milljónum kg …
Hafraakur í Dakota. Bandarískir bændur úða rúmlega 90 milljónum kg af Roundup á uppskeru sína ár hvert. AFP

„Enginn vill borða plöntueyði í morgunmat“

„Ég ólst upp við að borða Cheerios og Quaker-hafra löngu áður en þeir voru mengaðir af glýfosati,“ segir Ken Cook, forstjóri EWG. „Enginn vill borða plöntueyði í morgunmat og enginn ætti að þurfa að gera það.“ Segir hann EWG munu hvetja umhverfisstofnunina til að takmarka notkun glýfosats í matvælauppskeru. Fyrirtæki þurfi þó einnig að bæta sig vegna þeirrar „lögleysu“ sem ríki í reglugerðarmálum í stjórnartíð Donald Trumps.

„Það er áhyggjuefni að morgunkorn sem börnum finnst gott að borða innihaldi glýfosat,“ segir Alexis Temkin, eiturefnasérfræðingur hjá EWG og einn höfunda skýrslunnar. „Foreldrar ættu ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að með því að gefa börnum sínum holla hafrafæðu komi þeir þeim um leið í snertingu við efni sem tengt hefur verið krabbameini. Stjórnvöld verða að grípa til sinna ráða til að vernda viðkvæmustu þjóðfélagsþegnana.“

Monsanto hefur tilkynnt að það muni áfrýja dóminum sem féll vegna Roundup. Segir fyrirtækið hann vera verk „upp­t­endraðs kviðdóms“ og að hann byggi á „hjá­v­ís­ind­um“. Glýfosat hafi verið notað með öruggum hætti áratugum saman.

Erfitt að finna matvæli án glýfosats

Bandaríska umhverfisstofnunin úrskurðaði árið 2015 að glýfosat valdi litlum eituráhrifum hjá fólki, en að áhrifin geti verið alvarlegri fyrir gæludýr ef þau innbyrða efnið. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur engu að síður sett glýfosat á lista yfir efni sem séu „mögulega krabbameinsvaldandi“ og yfirvöld í Kaliforníuríki eru með efnið á lista yfir efni sem „ríkið viðurkennir að valdi krabbameini“.

Guardian segir að í apríl hafi tölvupóstar sem láku út frá Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) sýnt fram á að vísindamenn hafi fundið glýfosat í fjölda algengra matvæla og raunar hafi staðan verið sú að erfitt hafi verið að finna matvæli sem ekki innihéldu glýfosat. FDA hefur hins vegar enn ekki birt neina skýrslu um málið.

Nota 900 milljónir kg af Roundup árlega

Bandarískir bændur úða rúmlega 90 milljónum kg af Roundup á uppskeru sína ár hvert, m.a. á maís, sojabaunir, hveitikorn og hafra. Þá er einnig hægt að nota plöntueyðinn á grænmeti á borð við spínat sem og möndlur.

Talsmaður General Mills segir engan vafa leika á að vörur fyrirtækisins séu öruggar og að þær standist öryggisviðmið eftirlitsaðila. „Umhverfisstofnun hefur rannsakað þetta mál og sett reglur sem við fylgjum og það gera líka bændurnir sem rækta plönturnar, m.a. hveiti og hafra.“

Talsmaður Kellogg’s tekur í sama streng og segir matvæli fyrirtækisins vera örugg. „Með því að framleiða örugg hágæðamatvæli öðlumst við traust milljóna manna um heim allan.“ Staðlar umhverfisstofnunar séu strangir varðandi öryggisviðmið landbúnaðarafurða og innihaldsefnin sem fyrirtækið kaupi frá birgjum sínum standist þau viðmið.  

Hjá Quaker segjast menn standa „stoltir við öryggi og gæði Quaker-varanna“.

Cook telur fyrirtækin hins vegar reiða sig á úrelta öryggisstaðla.

„Okkar viðhorf er að Bandaríkjamönnum, sérstaklega börnum sem eru viðkvæmari fyrir áhrifum eiturefna en fullorðnir, stafi raunveruleg heilsufarsógn af þeim opinberu stöðlum sem Umhverfisstofnun setur,“ sagði hann.

mbl.is