Fundu gamlan hring á gulrót úr garðinum

Hringurinn á gulrótinni.
Hringurinn á gulrótinni. Ljósmynd/Lin Keitch

Gullhringur sem týndist í grænmetisgarði í Somerset á Englandi fyrir um tólf árum komst í leitirnar þegar eigandi hringsins gróf upp gulrætur úr garðinum fyrir kvöldmatinn. Ein gulrótanna hafði vaxið í gegnum hringinn sem hafði verið afmælisgjöf.

Eigandinn Lin Keitch, nú 69 ára, tók eftir hringnum þegar hún var að skola heimaræktað grænmetið. Hún hafði fengið hringinn að gjöf á fertugsafmæli sínu frá eiginmanni sínum, Dave, og dóttir þeirra hafði svo týnt honum í garðinum.

Parið telur að gulrótin hafi vaxið í gegnum hringinn og sagði Lin að líkurnar á að slíkt gæti gerst væru eflaust einn á móti milljón.

Í samtali við BBC sagðist Dave hafa leitað að hringnum reglulega í gegnum árin en aldrei orðið var við hann. Þá hafi hann ekki heldur orðið var við hann þegar hann gróf hann upp með gulrótinni.

„Þegar Lin setti gulræturnar í skál og undirbjó þær fyrir matinn tók hún eftir honum á gulrótinni. Hún var yfir sig ánægð. Hún er ekki búin að ákveða hvort hún eigi að gefa dóttur okkar hann aftur ef hún skyldi týna honum í annað sinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert